146. löggjafarþing — 37. fundur,  1. mars 2017.

opnun neyðarbrautarinnar á Reykjavíkurflugvelli.

156. mál
[16:38]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég hef ekki tekið við neinum fyrirmælum frá einum eða neinum. Þetta samtal eða hvað hann kallar það — hv. þm. Njáll Trausti Friðbertsson veit að ég hef talað um það í mörg ár að þetta mál verði aðeins leyst með sátt, ekki með ofbeldi af hálfu annars aðilans. Ég tel reyndar að við séum að renna út á tíma og þá lýsi ég ábyrgð á hendur þeim sem hafa verið hvað þröngsýnastir í málinu og ekki viljað semja um það.

Hér er talað um karp og að enginn þori að taka í bremsurnar. Af hverju tók hv. þingmaður ekki í bremsurnar þegar hann var forsætisráðherra? Af hverju beitti hann sér ekki í síðustu ríkisstjórn áður en lögin féllu? Hv. þingflokkur Framsóknarflokksins talar um lengingu á sjúkraflugi og 12,5 metra lengingu á flugi ef farið yrði Hvassahraun með flugvöllinn. Það er rétt. En lagði ekki flokkurinn til fyrir síðustu kosningar að sjúkrahúsið yrði fært þangað? Hefði þetta þá ekki komið á sama stað niður?

Framsóknarflokkurinn hefur líka starfað í borginni. Framsóknarflokkurinn hefur líka komið að ákvörðunum og lagt til ýmislegt á þessari vegferð, þannig að ég vísa því á bug að hér sé um eitthvert flokkspólitískt mál að ræða. Ég tel einfaldlega að það séu meiri hagsmunir fyrir okkur að ná sátt í málinu. Ég ítreka að ég held að með farsælli lausn þá getum við náð ávinningi fyrir alla landsmenn, en ekki með því að beita lögum eða reyna að hnekkja dómi Hæstaréttar sem þegar hefur fallið, eins óheppilegt og það kannski var.