146. löggjafarþing — 37. fundur,  1. mars 2017.

opnun neyðarbrautarinnar á Reykjavíkurflugvelli.

156. mál
[16:40]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég bið þingmanninn forláts hafi ég misst það út úr mér að það hafi verið einhver fyrirmæli. Ég var að tala um samtal. Ástæðan fyrir því að ég hóf ræðu mína á þessu var að mér fannst nokkuð augljóst að það samtal sem þeir ágætu bæjarfulltrúar hafa átt sem nýlega eru komnir inn á þingið hefði svolítið flust inn í þingsalinn. Það er rétt að Framsóknarflokkur hefur á 100 ára sögu sinni komið að ýmsu, en nú um langt skeið hefur Framsóknarflokkurinn heill, allir þingmenn hans, allir sveitarstjórnarfulltrúar, borgarfulltrúar, hvar sem þeir eru í flokki staddir eða hvar sem þeir eru staddir, verið sammála um að Reykjavíkurflugvöllur á að vera þar sem hann er sem miðstöð innanlandsflugs. Ef það verður hins vegar tekin ný ákvörðun um að færa hann eitthvert annað þarf að gera það með vitrænum hætti en ekki bara byrja að loka hluta hans og þvinga hann í burtu. Hvað er ofbeldi? Hvar er ofbeldið í þessu máli? (Gripið fram í: Það getur verið beggja vegna.) Það getur nefnilega legið beggja vegna. Ég er sammála hv. þingmanni að farsælast er í svona máli að finna einhverja sameiginlega lausn. Það hafa aðrar þjóðir gert. Ég minni á það sem hv. þm. Njáll Trausti Friðbertsson benti á sem Svíar hafa gert og margar aðrar þjóðir. Við Framsóknarmenn höfum talað um á liðnum árum í þingsal hvort það væri ekki skynsamlegt að mjög mikilvægir hlutir heyrðu einfaldlega undir skipulagsvald ríkisins með einhverjum hætti, í það minnsta í slíku samtali við viðkomandi sveitarfélög, að það væri hægt að eiga það samtal og menn væru tilbúnir til þess, báðir aðilar. Ég tek undir með hv. þingmanni að það væri auðvitað farsælast ef menn gætu fundið lausn á því. En í guðanna bænum látum öryggismál (Forseti hringir.) ekki vera að þvælast fyrir pólitík, eða öfugt réttara sagt.