146. löggjafarþing — 37. fundur,  1. mars 2017.

opnun neyðarbrautarinnar á Reykjavíkurflugvelli.

156. mál
[16:46]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég átti samtal við Halldór Auðar Svansson, fulltrúa okkar Pírata í borginni, fyrir kannski tveimur árum síðan — það var um það leyti þegar Höskuldur Þórhallsson, þáverandi þingmaður Framsóknarflokksins, var að leggja fram tillögu í þessum málum varðandi þjóðarflugvöllinn og heimild ríkisvaldsins til að grípa inn í hvað það varðar — bara svona til að vita hver væri afstaða hans í málinu. Ég átti persónulegt samtal við hann þá og hef átt við hann samtöl á fundum Pírata. Ég þekki ekki nákvæmlega hver staða málsins er í dag, en ef hún hefur breyst eitthvað langar mig að fá að vita það frá Halldóri, og eins og þingmaður nefndi í máli sínu áðan, að við eigum samtal við okkar fólk í borginni, sem er sjálfsagt.

Staðan er mjög einföld og ég hef sagt þetta oft hér í ræðustól varðandi þjóðarflugvöllinn, það hvernig málum er þar fyrir komið varðar alla landsmenn. Þar af leiðandi varða ákvarðanir sem teknar eru þar að lútandi ekki bara Reykvíkinga, þær varða alla landsmenn. Því að allir landsmenn borga í sameiginlegan sjóð til að byggja upp alls konar innviði á höfuðborgarsvæðinu sem landsmenn eiga jafnan rétt á við alla aðra að geta haft aðgengi að. Ef einhvern veginn á að takmarka aðgengi landsmanna að þessari þjónustu sem er hérna á suðvesturhorninu þurfa landsmenn að fá að koma að þeirri ákvörðun.

Svo langar mig að spyrja hv. þingmann hvort hann viti: Hann nefndi að eitthvað hefði verið reynt að eiga þetta samtal, hvað hefur hv. þingmaður gert? Hvað hafa aðrir flytjendur málsins, ef hann veit það og þá kannski fyrsti flutningsmaður, gert til að eiga þetta samtal? Því að mikilvægt er að þetta samtal eigi sér stað til að hægt sé að finna sátt í málinu sem ég held að hljóti að vera það sem þingmaðurinn vill. Hvað hefur hann sjálfur gert og hvað veit hann um þau samtöl sem hafa átt sér stað varðandi framtíð Reykjavíkurflugvallar af hans hálfu og hans flokks?