146. löggjafarþing — 37. fundur,  1. mars 2017.

opnun neyðarbrautarinnar á Reykjavíkurflugvelli.

156. mál
[16:51]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Já. Að sjálfsögðu er það lykilatriði varðandi öryggismál. Við erum með þjóðarsjúkrahús okkar á suðvesturhorninu. Við erum með það hérna í Reykjavík. Að sjálfsögðu þarf að tryggja öryggi flutninga, að aðrir sem búa á landsbyggðinni, sem búa þar af leiðandi tiltölulega langt í burtu, geti komist með mjög skjótum hætti undir þá læknisþjónustu sem getur verið nauðsynleg og í sumum tilfellum lífsnauðsynleg.

Veit hv. þingmaður hvaða samtal hefur átt sér stað við vinnslu þessa máls? Ef hann sem ráðherra fer af stað og starfsstjórn, og svo tekur starfsstjórnin við um að þrýsta á þetta samtal með „official“ hætti, það er oft hægt að eiga samtal þótt það sé ekki „official“, oft er hægt að reyna að eiga slíka fundi bara til að geta startað samtalinu — hefur eitthvað slíkt átt sér stað? Þetta mál hefur örugglega alls konar vinkla sem ég er ekki inni í. Það er ekki fyrr en fólk tekur samtalið að það fær oft annað „perspective“ eða aðra sýn, annað sjónarhorn á málið. Oftar en ekki finna menn, ef vilji er fyrir því og áhugi, betri lausn en báðir aðilar í upphafi gátu séð fyrir. Hvað annað hefur verið gert, ef eitthvað? Hvað verður gert síðan í kjölfar þessa fundar, í kjölfar þess að þetta mál fer í nefnd? Er það þá nefndarvinnan sem fer í að eiga þetta samtal eða munu þingmenn Framsóknarflokksins fara sjálfir og reyna að þrýsta á að eiga þetta samtal? Hvernig hefur samtalið verið að þróast með óformlegum hætti, ef er? Og hvernig mun samtalið í framhaldinu þróast?

(Forseti (JSE): Forseti vill minna þingmann á að tungumálið er íslenska hér í þessum sal.)

Ég þýddi það, smá.

(Forseti (JSE): Ekki í öll skiptin.)