146. löggjafarþing — 37. fundur,  1. mars 2017.

opnun neyðarbrautarinnar á Reykjavíkurflugvelli.

156. mál
[16:53]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér vitanlega hefur þingflokkurinn ekki verið í samtali við borgarstjórn Reykjavíkur, hvað sem einstakir þingmenn hafa gert. En hins vegar er það þannig að tveir borgarfulltrúar Framsóknarmanna eru í Reykjavík, Framsóknarmanna og flugvallarvina, og við höfum auðvitað átt samtöl og verið sammála um mikilvægi þess að Reykjavíkurflugvöllur sé þar sem hann er og neyðarbrautin sé opin. Sú vinna sem við höfum sinnt hefur þar af leiðandi verið svona til þess að efla það hvernig hægt sé að koma málinu áfram, ýta á það. Það er hins vegar eðlilegt, þegar við tökum þetta mál inn í þingið og búum til úr því sérstakt þingmál, að þegar að þessari umræðu lokinni fari það til nefndar og þar verði óskað eftir umsögnum þar sem við getum fengið þessi þá formlegu samtöl. En ég er sammála þingmanninum um að öll samtöl eru af hinu góða, líka þau óformlegu. Þau geta hjálpað til. Þetta mál hefur hins vegar verið í skotgröfum ansi lengi. Til að koma þeim upp úr skotgröfunum þarf eitthvað nýtt til. Kannski getum við hjálpast að við það, þingmenn og borgarfulltrúar, að koma því upp úr þeim skotgröfum. Það var nú það ákall sem ég var með til hv. þingmanna sem eiga kollega í sínum flokkum sem eru í meiri hluta borgarstjórnar Reykjavíkur.