146. löggjafarþing — 37. fundur,  1. mars 2017.

opnun neyðarbrautarinnar á Reykjavíkurflugvelli.

156. mál
[16:55]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég ætla að leyfa mér að byrja á því að lesa hér ályktun Framsóknarflokksins frá síðasta flokksþingi þar sem einmitt var ályktað um flugvallarmál. Þar segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Framsóknarflokkurinn leggst alfarið gegn þeim framkvæmdum sem veitt hefur verið leyfi fyrir og rýra verulega notkunarmöguleika Reykjavíkurflugvallar með tilliti til flugöryggis. Flugvöllurinn í Reykjavík er óumdeilanlega miðstöð innanlands- og sjúkraflugs. Vegna þjóðar-, almennings- og öryggishagsmuna leggur Framsóknarflokkurinn áherslu á að flugvöllurinn verði áfram í Vatnsmýrinni. Hann er mikilvægur hornsteinn í samgöngum landsmanna og þarf áfram að þjóna öllum landsmönnum. Framsóknarflokkurinn styður Reykjavíkurflugvöll í núverandi mynd, með þremur flugbrautum og mun styðja veru neyðarbrautarinnar 06/24 áfram.“

Virðulegur forseti. Hér ræðum við tillögu til þingsályktunar um opnun neyðarbrautarinnar á Reykjavíkurflugvelli en markmið tillögunnar er, eins og fram hefur komið í ræðum hv. þingmanna, að Alþingi álykti að fela hæstv. samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra að beita sér fyrir því að norðaustur/suðvestur-flugbrautin á Reykjavíkurflugvelli verði opnuð á ný svo fljótt sem verða má. Ráðherra láti útbúa aðgerðaáætlun í þá veru og upplýsi Alþingi um innihald hennar eigi síðar en í maí 2017. Eins og fram hefur komið í ræðum stendur allur þingflokkur Framsóknarflokksins að þessari tillögu en það er þingflokksformaður okkar Framsóknarmanna, hv. þm. Þórunn Egilsdóttir, sem er fyrsti flutningsmaður tillögunnar.

Í greinargerð með tillögunni segir m.a. að með þingsályktun þessari sé hæstv. samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra falið að beita sér fyrir því að sú flugbraut sem í daglegu tali er nefnd neyðarbrautin verði opnuð á ný, en henni var lokað í kjölfar dóms Hæstaréttar frá 9. júní 2016 í máli íslenska ríkisins gegn Reykjavíkurborg. Þetta var mál nr. 268/2016.

Ég verð að segja í ræðu minni, sem verður ekki löng, að við Framsóknarmenn, hv. þingmenn, trúum ekki öðru en hæstv. ráðherra Jón Gunnarsson bregðist hratt og vel við og taki efni þessarar tillögu af jákvæðum hug, sérstaklega vegna þeirra orða sem hann lét falla nokkrum mínútum eftir að hann tók við nýju starfi sem hæstv. samgönguráðherra. Maður sá fólk og hollvini neyðarbrautarinnar fagna verulega góðum orðum hæstv. samgönguráðherra um neyðarbrautina og Reykjavíkurflugvöll.

Þann 11. janúar 2017 sagði hæstv. samgönguráðherra að nauðsynlegt væri að það skapaðist einhver vissa um framtíð miðstöðvar innanlandsflugs í landinu á kjörtímabilinu og að málefni Reykjavíkurflugvallar væru einn af þeim þáttum samgöngumála sem væru í óásættanlegri stöðu. Þessi óljósa framtíð Reykjavíkurflugvallar gæti auðvitað ekki haldið áfram. Hann sagði jafnframt að hann hefði sagt það áður í ræðu og riti að ganga þyrfti frá því til framtíðar hvernig við högum þessum málum.

Í sömu frétt sagði hæstv. ráðherra, með leyfi forseta:

„Það er engin önnur lausn í stöðunni. Það er auðvitað áhugavert að skoða allar framtíðarpælingar um eitthvað annað, en það er eitthvað sem er komið svo stutt á veg að það mun í mínum huga taka mörg ár að koma niðurstaða í. Á meðan getum við ekki búið við einhverja óvissu um Reykjavíkurflugvöll.“

Eins og ég sagði áðan voru mikil fagnaðarlæti, m.a. á Facebook-síðum ýmissa notenda, eftir þessa frétt sem birtist um orð hæstv. samgönguráðherra. Það eru mjög margir sem vilja hafa flugvöllinn áfram og sérstaklega landsbyggðarfólk sem þarf á neyðarbrautinni og flugvellinum að halda vegna þess að það þarf m.a. að sækja þjónustu sjúkrahúsa hér, líka opinbera þjónustu ef við tölum um það, og jafnframt veit það að það er alltaf einhver hluti fólks sem býr í samfélagi þeirra sem þarf á þjónustu sjúkraflugs að halda.

Virðulegur forseti. Ég er sammála hæstv. ráðherra og fagna þessum orðum hans verulega því að það er ólíðandi fyrir íbúa landsins sem þurfa á þjónustu flugvallarins að halda, þurfa á sjúkraflugi að halda að neyðarbrautin sé lokuð. Eins og fram kemur í greinargerð með þingsályktunartillögunni sem við ræðum hér er í hvassri suðvestanátt neyðarbrautin t.d. eina flugbrautin á suðvesturhorni landsins sem sjúkravélar geta lent á.

Í greinargerð með tillögunni segir jafnframt að stjórn Flugmálafélags Íslands og sérfræðingar í flugmálum hafi skorað á yfirvöld að opna brautina á ný af öryggisástæðum. Þrátt fyrir að aðeins séu nokkrir mánuðir liðnir frá lokun neyðarbrautarinnar hafa þegar nokkur tilvik komið upp þar sem ekki hefur verið mögulegt að lenda sjúkravél á Reykjavíkurflugvelli. Nægir að nefna tilvik sem átti sér stað síðla árs 2016 þegar sjúkravél með sjúkling frá Höfn í Hornafirði gat ekki lent á Reykjavíkurflugvelli vegna hvassrar suðvestanáttar og þurfti að fljúga með sjúklinginn til Akureyrar. Útkallið var í fyrsta forgangi, en í þeim tilvikum er gerð krafa um tafarlaus viðbrögð. Þetta er bagalegt og sjúklingar víða af landinu eiga ekki að vera í þessari stöðu.

Við sjáum það núna og vitum og heyrum öll sem viljum heyra og hlusta á það að undanfarin ár, áratugi, hefur heilbrigðisþjónusta breyst. Það er kannski minna um sérhæfða sjúkrahúsþjónustu víða um landsbyggðina en var fyrir töluvert mörgum árum síðan og ýmsa bráðaþjónustu þarf að sækja til höfuðborgarsvæðisins. Þar hefur flugvöllurinn og þar með neyðarbrautin oft komið að góðum notum, svo sannarlega, og margir eiga jafnvel líf sitt að þakka því að hægt hafi verið að lenda á neyðarbrautinni.

Þetta mál, sjúkraflugið, er eitt mála sem við Framsóknarmenn leggjum til að verði skoðað í samræmi við forgangsmál okkar, þ.e. heilbrigðisáætlun, og tökum því heils hugar undir þau orð hv. þm. Njáls Trausta Friðbertssonar áðan að það væri töluvert skrýtið, ég man ekki nákvæmlega hvernig hann orðaði það, að hv. velferðarnefnd hefði ekki tekið sjúkraflugið til umræðu á fundi nefndarinnar. Þetta sagði hann. Ég tek undir það. Ég sat á fundi hv. velferðarnefndar þegar hann sagði þetta þar, fyrir nokkrum vikum síðan eða fyrir stuttu síðan. Ég mun sem aðalmaður í hv. velferðarnefnd fylgja orðum hv. þm. Njáls Trausta Friðbertssonar eftir og þetta verður rætt samhliða og sérstaklega í samhengi við heilbrigðisáætlun og heilbrigðisþjónustu, því að sjúkraflug er heilbrigðisþjónusta, hluti af lykilþjónustu sem við veitum í landinu.

Það er mjög mikilvægt að við tökum höndum saman og þessi tillaga komist til nefndar og til umræðu og að hæstv. samgönguráðherra taki tillit til hennar. Eins og ég sagði hér að framan trúi ég ekki öðru en að svo verði eftir þau orð sem hann lét falla um fimm mínútum eftir að hann tók við …

(Forseti (JSE): Forseti vill minna ræðumann á að ávarpa þingmenn með tilhlýðilegum hætti.)

Þegar hæstv. samgönguráðherra Jón Gunnarsson tók við embætti í janúar síðastliðinn. Afsakið, hæstv. forseti.