146. löggjafarþing — 37. fundur,  1. mars 2017.

opnun neyðarbrautarinnar á Reykjavíkurflugvelli.

156. mál
[17:03]
Horfa

Viktor Orri Valgarðsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Elsu Láru Arnardóttur fyrir ræðuna. Ég held við getum verið alveg sammála um mikilvægi þess að tryggja öryggi og aðgengi allra landsmanna að heilbrigðisþjónustu. Ég kom inn á það í ræðu um daginn um almannatryggingar að við búum í réttarríki og þurfum samkvæmt því að fylgja ákveðnum meginreglum þess. Hæstiréttur hefur, að mér skilst, dæmt í því máli að samkomulag um lokun neyðarbrautarinnar haldi. Því hef ég miklar efasemdir um að þessi tiltekna leið sé lagalega fær til að brjóta það samkomulag sem Hæstiréttur hefur úrskurðað um að skuli halda. Ég myndi vilja gera þetta á uppbyggilegan hátt og reyna að tryggja aðgengi að heilbrigðisþjónustu með einhverjum hætti. Til dæmis kom fram í skýrslu Ríkisendurskoðunar um sjúkraflug frá árinu 2013 að samstarf við Landhelgisgæsluna um að taka yfir sjúkraflug gæti hæglega verið álitlegur kostur til framtíðar í því að tryggja þetta aðgengi. Við erum kannski ósammála um það, ég tel ekki endilega að flugvöllur á höfuðborgarsvæðinu þurfi að vera í Vatnsmýrinni til framtíðar, það gæti t.d. verið í Hvassahrauni, en vissulega þarf að tryggja aðgengi á meðan flugvöllurinn er í Vatnsmýri.

Væri hv. þingmaður reiðubúin til að skoða það að tillögunni yrði breytt í meðförum nefndar á almennari veg, að ráðherra yrði falið að tryggja öryggi og aðgengi landsmanna og íbúa landsbyggðarinnar að heilbrigðisþjónustu án þess að sérstaklega væri kveðið á um þá leið að það þyrfti að gerast í gegnum neyðarbraut á Reykjavíkurflugvelli?