146. löggjafarþing — 37. fundur,  1. mars 2017.

opnun neyðarbrautarinnar á Reykjavíkurflugvelli.

156. mál
[17:10]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu mjög mikið. En það er náttúrlega svakalegt að þegar nánast allar valdastofnanir landsins, sveitarstjórnarmenn, alþingismenn, ráðherrar, stofnanir, beita sér fyrir auknu öryggi íbúana skuli vera sleginn út af borðinu hluti af öryggi þeirra sjúklinga á landsbyggðinni sem þurfa að sækja til höfuðborgarinnar í sjúkraflugi með svona ósamstæðum – eða öllu heldur óbilgirni höfuðborgarinnar. Það virðist enginn botn fást í að ná samningum um þessa neyðarbraut á meðan flugvöllurinn er hér, sem ég held að ætti nú að haldast í hendur.

Á undanförnum árum hefur gerst mikið í þessu máli. Svo ég noti orðalag eins og hv. þm. Sigurður Ingi Jóhannsson notar oft: Þegar maður opnar pandóruboxið kemur ýmislegt í ljós. Mér finnst ánægjulegt hvað hv. þingmenn Framsóknarflokksins hafa mikið álit á hæstv. samgönguráðherra, Jóni Gunnarssyni, enn þá, alla tíð, að hann leysi þetta mál bara einn, tveir og þrír. Ég held að í okkar samstarfi á síðasta kjörtímabili hefðum við átt að standa okkur betur í þessu máli. Ég held að það sé alveg klárt. (Gripið fram í: Sammála.) Við þurfum að horfast í augu við það að við sem vorum hér á síðasta kjörtímabili hefðum átt að standa okkur betur. Og auðvitað margir.

Mér finnst alveg rosalegt að á sama tíma og við erum að draga saman í ýmiss konar þjónustu heilbrigðisstofnana á landsbyggðinni er um leið verið að veikja sjúkraflugið. Mér finnst einhvern veginn að borgarfulltrúar og þeir sem véla um þessi mál í höfuðborginni verði að koma til móts við okkur í einlægri og eðlilegri ósk íbúa landsbyggðarinnar; þetta er lykillinn að öryggi fólksins. Verið er að ganga gegn öryggishagsmunum íbúa landsbyggðarinnar í þessu máli. Ég tek undir að við þurfum að fá botn í það sem fyrst.

Sumir hv. alþingismenn tala um að flytja flugvöllinn í Hvassahraun, ég held ekki að nokkur maður sé á leið þangað, ég trúi því bara ekki. Ég held að við þurfum að auka öryggi Reykjavíkurflugvallar í nálægð við háskólasjúkrahúsið þar sem þjónustan er öruggust og best. Okkur er talin trú um það, foreldrum á landsbyggðinni er talin trú um að ekki sé hægt að eiga börn í Reykjavík, á Landspítalanum. En þangað fara flestir. Það kostar þá að við þurfum að vera með það öryggi sem því fylgir að flytja fólk hingað í nánast öllum veðrum. Norðaustur/suðvestur-flugbrautin í Reykjavík lokar ekki oft en öryggið felst í því að hún loki aldrei meðan fært er til flugs. Bent hefur verið á að opna mætti sambærilega braut á Keflavíkurflugvelli, norðaustur/suðvestur-braut. Það er í sjálfu sér ekki mjög kostnaðarsamt. En þá er verið að færa sjúkraflugið á annan stað. Þá velti ég fyrir mér: Þyrfti þá ekki að gera bráðaaðstöðu á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja? Auðvitað myndu íbúar Suðurnesja fagna því en við erum að tala um öryggi í sjúkraflugi á Reykjavíkurflugvelli í þessu máli. Hér er miðstöð innanlandsflugsins. Það er mikilvægt að við stöndum saman um það, þingmenn, að ljúka þessu máli sem fyrst. Ég skora á borgaryfirvöld að setjast að borðinu með sátt í huga og að við klárum málið og bætum og stuðlum að auknu öryggi fyrir sjúklinga og íbúa landsbyggðarinnar.