146. löggjafarþing — 37. fundur,  1. mars 2017.

opnun neyðarbrautarinnar á Reykjavíkurflugvelli.

156. mál
[17:15]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég kem aðallega hér upp vegna þeirra orða sem ég hef heyrt falla í þessari umræðu um ofbeldi og eitthvað slíkt. Það hefur aðallega, hefur mér heyrst, verið formaður Samfylkingarinnar sem hefur notað þau orð. Það gleymist í þessu að það ofbeldi sem er notað í þessu máli er að sjálfsögðu af hendi borgarinnar þar sem borgarstjórnarmeirihlutinn undir forystu Samfylkingarinnar hefur farið mjög hart fram í þessu máli, í rauninni hunsað þær óskir sem hafa komið fram um að menn hægðu á sér, það væri ekki ástæða til að fara svona hratt. Það hefur verið svo mikil áhersla á að selja landið sem er þarna við brautina að það hefur ekki mátt doka við. Ofbeldi í þessu máli er ekki af hálfu Alþingis eða þingmanna, það er af hálfu borgarinnar. Borgin hefur hunsað algerlega það sem fram hefur komið í könnunum m.a., að landsmenn allir sem eiga jú þennan flugvöll saman vilji hafa hann þarna, vilji hafa hann í lagi þannig að hann geti nýst.

Að sjálfsögðu berjumst við öll fyrir því að hann sé þarna áfram meðan menn halda áfram þessari vitleysu, að reisa og byggja spítalann þar sem hann er í dag, inni í miðri borginni, í Þingholtunum, þegar nær væri að byggja hann annars staðar. Og ef menn byggja hann annars staðar þarf að sjálfsögðu að finna út hvort flugvöllurinn eigi að vera áfram þar sem hann er, byggja þá upp samgöngukerfi frá flugvellinum að nýju sjúkrahúsi. Ef menn sammæltust hins vegar um að færa flugvöllinn í Hvassahraun þyrfti líka að reikna út tímann þaðan. Það er alveg ljóst að það er margt órannsakað í þessu.

Formaður Samfylkingarinnar talaði áðan um sátt og að sjálfsögðu hefði fyrir löngu átt að vera búið að fara í þá vinnu að reyna að leita eftir sátt um það hvort flugvöllurinn ætti að vera þar sem hann er eða fara, að ná sátt um það. Ekki að tala núna um einhvers konar sátt þegar við erum að reyna að koma í veg fyrir að áfram verði uppi sú alvarlega staða sem er í sjúkrafluginu í dag. Þetta er mjög óábyrgt af hálfu borgarinnar hvernig hún hefur farið fram og er held ég til marks um það þegar borgin, eða borgarstjórnarmeirihlutinn, axlar ekki þá ábyrgð sem hún hefur sem höfuðborg allra landsmanna.

Það hefur komið fram að það eru vísindaleg rök, öryggisrök fyrir því að þessi braut skuli vera opin áfram. Þau rök hafa verið hunsuð fram að þessu. Það er því á ábyrgð þeirra sem gera slíkt með þeim hætti að ætla að stofna mannslífum í hættu. Ég ætla einfaldlega að leyfa mér að segja það. Ég held að það sé nákvæmlega þannig.

Samgönguráðherra steig jú fram í upphafi síns ferils sem slíkur ráðherra og talaði mjög skýrt um Reykjavíkurflugvöll. Ég ætla að vona að ráðherrann hafi ekki bakkað frá því, vona að ráðherrann sé sá maður að geta staðið við þau stóru orð sem hann lét falla þá. Það væri hins vegar mjög fróðlegt ef ráðherrann gæti komið í þessa umræðu eða tjáð sig einhvers staðar um stöðuna á málinu nákvæmlega af hans hálfu. Það væri mjög æskilegt.

Ég kem hingað fyrst og fremst til að leggja áherslu á að þessi tillaga er sett fram vegna þess að það er nauðsynlegt að bregðast við. Hún er ekki sett fram í einhverjum galgopaskap eða til þess að tefja mál eða eitthvað slíkt. Hún er sett fram vegna þess að menn hafa virkilega áhyggjur af þessu. Ekki eingöngu þeir þingmenn sem leggja tillöguna fram heldur líka þeir sem hafa hér úr öðrum flokkum talað í þessari umræðu og að sjálfsögðu líka þeir sem sinna þessum verkefnum og hafa margsinnis bent á nauðsyn þess að hafa brautina opna. Í greinargerðinni með tillögunni er m.a. vísað í stjórn Flugmálafélags Íslands og sérfræðinga í flugmálum sem hafa skorað á yfirvöld að halda brautinni opinni.

Frú forseti. Ég held að það sé mjög mikilvægt að tillagan fái góða að sjálfsögðu en um leið nokkuð hraða meðferð í nefndinni sem hún fer til, væntanlega umhverfis- og samgöngunefndar, þar sem mikilvægt er að koma málinu áfram þannig að ráðherra geti fengið þetta veganesti frá þinginu til að vinna áfram að málinu. Ég ber enn fullt traust til þess að ráðherrann fylgi þeim orðum eftir sem hann lét falla eftir að hann tók við embætti. En að sjálfsögðu er það okkar þingmanna að fylgjast með því að slíkt gerist.

Frú forseti. Ég ætla ekki að hafa þetta lengra. Ég held samt að það sé mikilvægt að þessi orð séu skráð í þingtíðindin og það heyrist hér úr ræðustól að þetta er á ábyrgð borgarinnar fyrst og fremst, það er hún sem hefur ekki viljað hafa samráð um þetta mál.