146. löggjafarþing — 37. fundur,  1. mars 2017.

rafræn birting málaskráa og gagna ráðuneyta.

175. mál
[17:43]
Horfa

Flm. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Það gleður mig sannarlega að hv. þingmaður taki vel í þetta mál. Það er þó a.m.k. eitt atkvæði frá stjórnarmeirihlutanum, sem er nú drjúgt um þessar mundir.

Hv. þingmaður spyr hvernig við séum undirbúin undir að gera þetta. Ég held að við séum þokkalega vel undirbúin. Það eru rafrænar skráningar í ráðuneytunum. Ef við horfum lengra þá eru flest sveitarfélögin líka komin með rafræna stjórnsýslu. Það er helst að tíminn fari í að búa til reglur um það hvað má birta og hvað ekki og hvernig ferlarnir eigi að vera og umhverfið sé notendavænt þannig að það sé aðgengilegt fyrir almenning að skoða og afla sér upplýsinga.

Þetta hefur ekki verið kostnaðarmetið en það þarf auðvitað að gera það. Hæstv. forsætisráðherra er samkvæmt tillögunni falið að fara í þessa vinnu. Allt málið er með stoð í stjórnsýslulögum. Það skiptir miklu máli. Þar er lagastoðin. Síðan getum við litið til frænda okkar í Noregi og lært af þeirra reynslu. Ég er viss um að stjórnsýslan þar er tilbúin til að aðstoða okkur við þetta mál.