146. löggjafarþing — 37. fundur,  1. mars 2017.

rafræn birting málaskráa og gagna ráðuneyta.

175. mál
[17:58]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (Vg):

Virðulegi forseti. Í þessu máli kemur margt gott og áhugavert saman þó að það láti kannski lítið yfir sér. Í fyrsta lagi endurspeglar tillagan almenna þróun sem er að verða í samfélaginu sem viðbragð við þróun í upplýsingatækni. Í dag er miklu auðveldara að koma upplýsingum á framfæri í gegnum netið þannig að almenningur og fjölmiðlar geta nýtt sér gögn og upplýsingar hvar svo sem þær er að finna. Í öðru lagi er sú hugsun að þær upplýsingar sem aflað er fyrir opinbert fé séu almennt og yfirleitt aðgengilegar almenningi. Það sem er opinbert á að vera opið. Þetta er þróun sem hefur svo sem verið í gangi um nokkurra ára skeið. Ég vil t.d. nefna þá aðgerð í umhverfisráðuneytinu, þáverandi hæstv. ráðherra, Svandísar Svavarsdóttur, þegar landupplýsingagögn í fórum Landmælinga voru gerð gjaldfrjáls enda hafði þeirra allra verið aflað fyrir opinbert fé og því ákveðin tvígreiðsla að vera að rukka fólk aftur fyrir aðganginn þegar tæknin leyfir nú orðið að miðla þeim upplýsingum nokkurn veginn kostnaðarlaust fyrir hið opinbera.

Í þriðja lagi eru hér, og það er kannski stóra málið og hefur verið komið inn á það í fyrri ræðum, viðbrögð við leyndarhyggju sem hefur allt of oft verið við lýði, sérstaklega í kringum rekstur hins opinbera, upplýsingar í fórum ráðuneyta. Ég held að finnist varla sá einstaklingur sem hefur starfað við blaðamennsku sem ekki kann einhverjar sögur af því hvernig ráðuneyti reyna að torvelda aðgang að upplýsingum á grundvelli upplýsingalaga. Eitt af trixunum sem er hægt að beita er að fara fram á að sá sem beiðist aðgangs að upplýsingum tiltaki nákvæmlega hvaða upplýsingar hann vilji fá, sem er býsna erfitt þegar viðkomandi hefur ekki aðgang að efnisyfirliti málaskrár. Þess vegna er t.d. vefurinn sem hér hefur verið vísað til í Noregi eðlilegt fyrsta stopp norskra blaðamanna þegar þeir leita að upplýsingum hjá hinu opinbera, að sjá hvað það er nákvæmlega sem hægt er að kalla fram.

Þetta eru viðbrögð sem hafa verið nokkuð ríkjandi, en við höfum stöðugt verið að bregðast við þeirri leyndarhyggju, í missterkum gusum frá hruni, þegar okkur sem samfélagi eiginlega opinberaðist á nokkrum stöðum hvað þetta vandamál væri rótgróið og víðfemt og hvað það skipti miklu máli. Ef fjölmiðlar hefðu átt greiðari leið að upplýsingum í aðdraganda hrunsins hefðu þeir kannski getað fjallað öðruvísi um mál. Hefðum við kannski orðið fyrir minni búsifjum í hruninu ef ráðuneyti hefðu ekki beitt undanbrögðum þegar beðið var um upplýsingar?

Hér var vísað til 15. gr. tillagna stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá, grein um upplýsingarétt, sem segir í rauninni í einni setningu það sem þessi tillaga til þingsályktunar er að setja fram. Í þessari 15. gr. tillagna stjórnlagaráðs segir, með leyfi forseta:

„Listi yfir öll mál og gögn í vörslu hins opinbera, uppruna þeirra og innihald, skal vera öllum aðgengilegur.“

Í greinargerð með tillögum stjórnlagaráðs er einmitt vísað í norska vefinn sem í þessari þingsályktunartillögu er vísað til. Stjórnlagaráð var einmitt að starfa á þeim tíma þar sem við vorum sem samfélag að átta okkur á stöðunni, vorum að átta okkur á leyndarhyggjunni, við vorum í ákveðnu sjokki eftir hrunið að bregðast við. Þess vegna er kannski skiljanlegt að stjórnlagaráð hafi lagt þetta til. Þar segir m.a. í greinargerð það sem ég hef þegar nefnt áður, með leyfi forseta:

„Vandasamt hefur verið fyrir fjölmiðla að nálgast ýmsar upplýsingar í vörslu opinberra aðila þar sem ekkert yfirlit hefur verið fyrir hendi um tiltekin mál.“

Þess vegna lagði stjórnlagaráð til að herða á frumkvæðisskyldu stjórnvalda til að birta upplýsingar af því að það er einn af hornsteinunum í lýðræðisríki að fjölmiðlar hafi góðan aðgang að upplýsingum úr fórum hins opinbera og almenningur hafi það líka svo ekki sé hægt að beita undanbrögðum, eins og hv. þm. Viktor Orri Valgarðsson nefndi til dæmis í kringum skýrslurnar blessaðar sem hefðu birst í málaskrá fjármálaráðuneytisins talsvert fyrr en þær gerðu hér í þingsal.

Frummælandi málsins var spurð af öðrum hv. þingmanni hvort hún hefði skoðað mögulegan kostnað. Þá rakst ég á í gagnasafni Alþingis að búið er að skjóta á þann kostnað. 18. júní 2014 birtist svar forsætisráðherra við fyrirspurn frá þáverandi hv. 10. þm. Reykv. n., Helga Hrafni Gunnarssyni, um upplýsingagjöf og reglugerð samkvæmt upplýsingalögum, þar sem þingmaðurinn spyr ráðherrann hvernig unnið skuli að því að gera málaskrár aðgengilegar á vef. Þar kemur fram að forsætisráðuneytið hafi kynnt sér starf Norðmanna á þessu sviði, eins og fleiri, og að í skoðun sé að fara af stað með tilraunaverkefni sem þó sé háð því að fjármögnun sé tryggð. Nú eru þrjú ár liðin og ekki hefur náðst að tryggja þetta fjármagn. En í því svari er áætlað að kostnaðurinn nemi 10 millj. kr. Það þykir mér ekki mikið. Í raun þykir mér furðu sæta að miðað við það að fyrir þremur árum hafi hér í þessum þingsal verið rætt um þetta mál í tengslum við fyrirspurn þáverandi þingmanns, Helga Hrafns Gunnarssonar, og árin þar áður í tengslum við tillögur stjórnlagaráðs, þá virðist hæstv. þáverandi forsætisráðherra taka nokkuð vel í hugmyndina í svari sínu til þingmannsins 2014. Því sýnist mér á öllu að þetta sé svo löngu tímabært að það ætti að vera nokkuð létt verk að hleypa þessu máli áfram til frekari umræðu og endanlegrar samþykktar hið fyrsta.