146. löggjafarþing — 37. fundur,  1. mars 2017.

merking á vörum frá hernumdum svæðum Palestínu.

76. mál
[18:13]
Horfa

Flm. (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir þingsályktunartillögu um merkingu á vörum frá hernumdum svæðum Palestínu sem 1. flutningsmaður þeirrar tillögu. Aðrir flutningsmenn eru hv. þingmenn Logi Einarsson, Hanna Katrín Friðriksson, Einar Brynjólfsson, Steingrímur J. Sigfússon, Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, Rósa Björk Brynjólfsdóttir, Jón Steindór Valdimarsson, Steinunn Þóra Árnadóttir og Björn Leví Gunnarsson.

Tillagan hljóðar svo:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að grípa til nauðsynlegra ráðstafana annars vegar til að merkja uppruna vara sem framleiddar eru á hernumdum svæðum Palestínu með viðeigandi hætti og hins vegar til að gera Palestínumönnum kleift að nýta sér kosti fríverslunarsamnings EFTA og Palestínu.“

Þessi tillaga er ekki ný af nálinni. Hún var fyrst flutt á 141. þingi. Lengst af var hún flutt af hv. fyrrverandi þingmanni, Ána Þór Sigurðssyni. Hún hefur tvisvar komið til umfjöllunar í nefnd og mælti atvinnuveganefnd Alþingis með samþykkt tillögunnar á 141. löggjafarþingi, en hún kom ekki til endanlegrar afgreiðslu þingsins og málið kom einnig til meðferðar utanríkismálanefndar á 143. þingi. Á síðustu tveimur þingum hefur tillagan ekki komið til umræðu þannig að það er sérstakt fagnaðarefni að það náist að mæla fyrir henni. Tillagan er endurflutt óbreytt, en með uppfærðri greinargerð hvað varðar tölfræði um viðskipti og aðgerðir framkvæmdastjórnar ESB.

Eins og kunnugt er á stjórnmálasamband Íslands og Ísraels sér nokkuð langa sögu og hafa viðskipti milli þjóðanna verið töluverð þótt þau hafi heldur minnkað á síðustu fimm árum. Samkvæmt tölum frá Hagstofunni nam innflutningur þaðan 1.020 millj. kr. árið 2011 og 774 millj. kr. árið 2015. Víða um heim hafa stjórnvöld og neytendur vaknað til vitundar um að hluti útflutningsvara frá Ísrael eigi uppruna sinn ekki að rekja til svæða innan hinna alþjóðlegu viðurkenndu landamæra Ísraelsríkis og þá er miðað við landamæri ríkisins frá 1948, heldur til ólöglegra landnemabyggða á hernumdum svæðum Palestínu, sem eru einkum á vesturbakka Jórdanar og í austurhluta Jerúsalemborgar. Þessum byggðum hefur farið fjölgandi því miður, enda þótt þær stríði gegn alþjóðlega viðurkenndum landamærum, úrskurði Alþjóðadómstólsins í Haag og fjölda ályktana Sameinuðu þjóðanna. Eins og gefur að skilja hefur þessi þróun skaðað lífskjör Palestínumanna en ekki má heldur vanmeta hversu umdeildar byggðirnar eru meðal ísraelskra borgara. Núverandi stjórnvöld í Ísrael virðast þó fylgja þeirri stefnu að taka aukið land og vatnsból frá Palestínumönnum undir byggðir landnema. Af þeim sökum hafa þær reynst einn helsti þröskuldurinn í vegi frekari friðarviðræðna fyrir botni Miðjarðarhafs auk þess sem reglulega kemur til átaka milli landnema og Palestínumanna sem verða að sjá af ræktarlöndum sínum.

Ísland hefur aldrei — ekki frekar en Sameinuðu þjóðirnar — viðurkennt landnemabyggðirnar sem hluta Ísraelsríkis. Því ætti ekki að viðurkenna Ísraelsríki sem upprunaland þeirra vara sem framleiddar eru í landnemabyggðunum. Nokkur lönd hafa unnið að reglugerðum þess efnis að upprunamerking þessara vara verði umræddar landnemabyggðir en ekki Ísrael, þ.e. þær verði sérmerktar. Framkvæmdastjórn ESB sendi frá séð leiðbeiningar hvað slíkar merkingar varðar 11. nóvember 2015. Í Bretlandi, Suður-Afríku og fleiri löndum virðist málið hins vegar enn vera í undirbúningi eða umsagnarferli.

Meðal þeirra ásakana sem stjórnvöld í þessum löndum hafa orðið að bregðast við er að með þessu sé ætlunin að draga úr viðskiptum við Ísrael. Því hefur meðal annars viðskipta- og iðnaðarráðherra Suður-Afríku, Rob Davies, hafnað og bent á að það sé skylda þarlendra stjórnvalda að framfylgja lögum um neytendavernd með þessum hætti, enda sé í þeim kveðið á um að uppruni vara skuli tilgreindur. Sem meðlimur í Sameinuðu þjóðunum geti Suður-Afríka ekki viðurkennt landnemabyggðirnar sem hluta af Ísraelsríki og því sé ekki hægt að tilgreina Ísrael sem upprunaland vara sem framleiddar eru á landnemabyggðunum. Í þessu sambandi má geta þess að í Sviss hafa stórmarkaðakeðjurnar Migros og Coop haft frumkvæði að því að sérmerkja vörur frá landnemabyggðum og upplýst að það sé til þess að veita viðskiptavinum fullnægjandi upplýsingar um vörurnar sem í boði eru en ekki til þess að hvetja þá til þess að sniðganga ísraelskar vörur.

Með þeim ráðstöfunum sem þessi þingsályktunartillaga kallar eftir yrði íslenskum neytendum gert kleift að taka sjálfir ákvörðun um hvort þeir vilja styðja efnahagsumsvif á ólöglegum landnemabyggðum á hernumdu svæðunum í Palestínu. Ekki er víst að sérmerking slíkra vara myndi hafa mikil áhrif á viðskipti Íslands og Ísraels, en þá hefðu íslenskir neytendur a.m.k. fullnægjandi upplýsingar um það hvort þær vörur sem þeir kaupa eru framleiddar í Ísrael innan þeirra alþjóðlegu landamæra sem Ísland viðurkennir, eða hvort þær eru framleiddar í þessum ólögmætu byggðum. Því má ekki túlka þessa tillögu sem svo að hér sé verið að leggja fram tillögu um viðskiptaþvinganir heldur er verið að tryggja að neytendur séu upplýstir og geti tekið meðvitaða ákvörðun sem hefur þessa pólitísku þýðingu.

Þá vil ég nefna fríverslunarsamninginn sem er í gildi milli Fríverslunarsamtaka Evrópu og Palestínumanna, en Fríverslunarsamtök Evrópu, eða EFTA og PLO, gerðu með sér bráðabirgðafríverslunarsamning sem tók gildi 1. júlí 1999 og fylgir hér með sem fylgiskjal. Tilgangurinn var að tryggja jafnvægi milli EFTA-ríkjanna og Evrópusambandsríkjanna í viðskiptum við löndin við sunnanvert Miðjarðarhaf. Þá var samningurinn talinn mikilvægur hlekkur í stuðningi við friðarferlið fyrir botni Miðjarðarhafs. Skemmst er frá því að segja að samningurinn hefur ekki verið virkur sem skyldi og viðskipti EFTA við heimasvæði Palestínumanna eru takmörkuð. Heildarviðskiptin námu einungis 23,3 milljónum bandaríkjadala árið 2015 og voru í reynd aðeins útflutningur EFTA-ríkjanna til Palestínumanna. Þá hefur því verið haldið fram að Ísrael komi í reynd í veg fyrir að Palestínumenn nái að fullnusta þennan samning og njóta þeirra fríðinda sem honum fylgja því að landsvæði þeirra sé sundurrist af múrum sem koma í veg fyrir að þeir geti ræktað sitt land og eðlilegir vöruflutningar geti farið fram.

Því er það svo að þessi tillaga er hér lögð fram, herra forseti, þ.e. að stjórnvöld grípi til nauðsynlegra aðgerða þannig að unnt sé annars vegar að upprunamerkja þessar vörur — sem ekki aðeins er pólitísk yfirlýsing heldur líka hluti af eðlilegri löggjöf neytendaverndar; neytendur eiga rétt á því að vita hvar vörur eru framleiddar, á hvaða svæðum, svo að þeir geti tekið upplýsta ákvörðun — og hins vegar að beita sér fyrir því á alþjóðlegum vettvangi að Palestínumönnum verði gert kleift að nýta sér kosti fríverslunarsamnings EFTA og Palestínu sem, eins og hér kemur fram, hefur ekki nýst sem skyldi.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að halda hér langa ræðu um stjórnmálaástandið fyrir botni Miðjarðarhafs þó að að sjálfsögðu væri unnt að gera það, en ég vonast til að þessari tillögu verði að lokinni umræðu vísað til hv. utanríkismálanefndar. Ég bind vonir við það í ljósi þess að á tillögunni eru flutningsmenn úr fjórum stjórnmálaflokkum. Alþingi hefur viðurkennt Palestínu sem sérstakt ríki. Hér hefur verið mikill stuðningur um árabil við það að styðja við rétt Palestínumanna til sjálfstæðs ríkis og þá bind ég vonir við að við náum að afgreiða þessa tillögu. Það væri bæði framfaraspor fyrir íslenska neytendur, en líka mjög mikilvæg skilaboð sem Alþingi Íslendinga væri að senda inn í þetta viðkvæma ástand, skilaboð sem byggjast á því að nýta verslun og viðskipti í friðsamlegum tilgangi.

Herra forseti. Ég legg til að að lokinni þessari umræðu verði tillögunni vísað til hv. utanríkismálanefndar.