146. löggjafarþing — 37. fundur,  1. mars 2017.

merking á vörum frá hernumdum svæðum Palestínu.

76. mál
[18:22]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V):

Virðulegi forseti. Ísrael hefur frá árinu 1967 haldið umtalsverðum landsvæðum hernumdum. Þetta eru m.a. Gólanhæðir, Gaza-svæðið og Vesturbakkinn. Á þessum svæðum eru ólöglegar landnemabyggðir Ísraela í trássi við alþjóðalög og -samþykktir. Með þessu er freklega gengið á rétt og hagsmuni Palestínumanna. Ísland hefur aldrei viðurkennt yfirráð Ísraela yfir þessum landsvæðum eða landnemabyggðir þeirra. Það er eðlileg krafa fyrir íslenska neytendur og sjálfsögð virðing við Palestínumenn og réttindabaráttu þeirra að vörur sem hingað eru fluttar frá umræddum svæðum séu sérstaklega merktar, það komi skýrt fram að þær séu framleiddar á hernumdum svæðum sem Ísraelar halda með ólögmætum hætti. Með því móti getum við Íslendingar lagt okkar lóð á vogarskálar baráttu Palestínumanna gegn ólögmætu hernámi með tilheyrandi ógnvænlegum afleiðingum fyrir þá sem hernámið bitnar á. Neytendur eru þá upplýstir um hvaðan vörur koma sem fluttar eru hingað frá Ísrael, hvort þær koma frá svæðum innan landamæra sem Ísland hefur viðurkennt eða utan þeirra og frá hinum hernumdu svæðum.

Mér finnst þetta gott mál og ég þakka hv. þm. Katrínu Jakobsdóttur fyrir að leggja fram þessa tillögu og gefa mér kost á að vera meðflutningsmaður á henni.