146. löggjafarþing — 37. fundur,  1. mars 2017.

merking á vörum frá hernumdum svæðum Palestínu.

76. mál
[18:24]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Katrínu Jakobsdóttur fyrir að leggja á ný fram þessa mikilvægu þingsályktunartillögu sem hér hefur verið flutt af Alþingi allt frá árinu 2012. Þetta mál lætur kannski ekki mikið yfir sér í augum sumra því að um er að ræða merkingar á vörum. En hér er um að ræða merkingar á vörum sem eiga uppruna sinn að rekja til ólöglegra landnemabyggða á hernumdum svæðum Palestínu. Því er um að ræða afar mikilvægt mál. Þetta er mál sem snýst um afstöðu með mannréttindabaráttu, afstöðu með friði og réttindum borgara, afstöðu með siðferði og afstöðu gegn ólöglegu hernámi ísraelskra landnema á landsvæði Palestínu. Þeim ólöglegu byggðum hefur farið fjölgandi þrátt fyrir úrskurð Alþjóðadómstólsins í Haag, fjölda ályktana Sameinuðu þjóðanna og þrátt fyrir að þessar byggðir stríði gegn alþjóðlega viðurkenndum landamærum Palestínu og Ísraelsríkis.

Skemmst er frá því að segja að þessar ólöglegu landnemabyggðir eru kjarninn í því af hverju ekki næst friður á milli landnema og Palestínubúa sem þurfa að sjá á eftir ræktarlöndum sínum og viðskiptatækifærum í hendur á Ísraelum sem selja svo vörurnar sem eru framleiddar á þessum ólöglegu svæðum á kostnað lífsgæða Palestínubúa. Við bætist að tekin hafa verið af Palestínumönnum þau landsvæði ófrjálsri hendi.

Rétt er að árétta aftur það sem kemur fram í haldgóðri greinargerð sem fylgir þingsályktunartillögunni um að Ísland hefur aldrei, aldrei, herra forseti, viðurkennt landnemabyggðirnar sem hluta Ísraelsríkis, ekki frekar en Sameinuðu þjóðirnar sem hafa ekki samþykkt landnemabyggðirnar. Eigum við neytendur ekki rétt á því að vita hvort vörur sem eru merktar Ísrael komi í raun og veru ekki þaðan heldur frá hernumdum svæðum Palestínu þar sem brotið er á réttindum borgara alla daga?

Ég er þess þenkjandi að þessi þingsályktunartillaga um upprunamerkingar á vörum frá ólöglegum landnemabyggðum Ísraela á landsvæðum Palestínu sé ekkert sérstaklega róttæk og eigi því fullkomlega rétt á sér, kannski í ljósi þess að á Þorláksmessu síðastliðinni gerðist sá merki atburður að öryggisráð Sameinuðu þjóðanna samþykkti með 14 atkvæðum ályktun þar sem landnemabyggðir Ísraela á hernumdum svæðum Palestínu voru gagnrýndar harðlega. Tillagan var söguleg þar sem þetta var í fyrsta skipti sem Bandaríkin beittu ekki neitunarvaldi og þótti það tíðindum sæta enda hafa Bandaríkin beitt neitunarvaldi í öryggisráðinu iðulega í málefnum Ísraels.

Þó að Ísland eigi ekki sæti í öryggisráðinu þá erum við aðildarríki og stofnaðilar að Sameinuðu þjóðunum eins og alþjóð veit og höfum rétt til að tjá okkur um ályktanir öryggisráðsins, en íslensk stjórnvöld hafa ekki gert það ef marka má fréttir á heimasíðu utanríkisráðuneytisins. Það væri því afar upplýsandi að heyra um afstöðu Íslands um niðurstöðu öryggisráðsins frá því á Þorláksmessu síðastliðinni og hvort hæstv. utanríkisráðherra, Guðlaugur Þór Þórðarson, hafi tekið málið upp á fundi sínum með dr. Riyad al-Maliki, en þeir hittust á fundi mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna í fyrradag í Genf í Sviss.

Auðvitað mætti leika sér hér í ræðustól Alþingis með það hvort þetta veki upp spurningar um hvort Ísland styðji ekki örugglega ályktun öryggisráðsins, verandi ríki sem viðurkenndi sjálfstæði Palestínu 15. desember 2011 í tíð ríkisstjórnar Vinstri grænna og Samfylkingarinnar, en ég hef reyndar ekki neinar einustu áhyggjur af öðru en fullum stuðningi íslenskra stjórnvalda við ályktun öryggisráðsins.

Þessi sögulega ályktun öryggisráðsins var að sjálfsögðu gagnrýnd harðlega af ísraelskum stjórnvöldum og sagði Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísraels, að ísraelsk stjórnvöld ætluðu sér ekki að fylgja ályktuninni að neinu marki, vísaði henni algerlega á bug og sagði við sama tækifæri hlakka til samstarfsins við Donald Trump, verðandi þá forseta Bandaríkjanna. Það er og.

Aftur að þingsályktunartillögunni sem við ræðum hér. Hinn hluti hennar fjallar um þann góða bráðabirgðafríverslunarsamning sem tók gildi 1. júlí 1999 á milli Fríverslunarsamtaka Evrópu, EFTA, og Frelsissamtaka Palestínumanna, PLO, en líkt og segir í greinargerðinni með þingsályktunartillögunni er tilgangurinn með þeim samningi að tryggja jafnvægi á milli EFTA-ríkjanna og Evrópusambandsríkjanna í viðskiptum við löndin við sunnanvert Miðjarðarhaf. Því miður virðist sem samningurinn hafi ekki virkað sem skyldi og viðskipti EFTA við heimasvæði Palestínu eru því takmörkuð.

Herra forseti. Ég ætla ekki að rekja þær skelfilegu hörmungar sem palestínska þjóðin hefur gengið í gegnum allt frá árinu 1948 með tilheyrandi manntjóni og áföllum fyrir hinn almenna palestínska borgara, heldur að hvetja íslensk stjórnvöld til þess að standa við stuðning sinn og viðurkenningu íslenskra stjórnvalda á sjálfstæði Palestínu og þá sögulegu ályktun Alþingis frá 29. nóvember, alþjóðlegum samstöðudegi með palestínsku þjóðinni, árið 2011, þegar hér var samþykkt mótatkvæðalaust að íslensk stjórnvöld myndu viðurkenna Palestínu sem sjálfstætt og fullvalda ríki innan landamæranna frá því fyrir sex daga stríðið árið 1967.

Ég vil því hvetja stjórnvöld til þess að taka upp þessa þingsályktunartillögu, um að upprunamerkja vörur frá hernumdu svæðunum, sem er sjálfsagður hlutur, og gera allt sem í þeirra valdi stendur til þess að bráðabirgðafríverslunarsamningurinn taki gildi og sé raunverulegur palestínsku þjóðinni til heilla.