146. löggjafarþing — 37. fundur,  1. mars 2017.

merking á vörum frá hernumdum svæðum Palestínu.

76. mál
[18:39]
Horfa

Flm. (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmönnum fyrir að taka þátt í umræðu um málið. Eins og ég sagði áðan í flutningsræðu vona ég, í ljósi þess að málið hefur á fyrri stigum hlotið þá umsögn í nefndum þingsins að rétt væri að afgreiða málið, þá vonast ég til að til þess komi nú. Við höfum tímann fyrir okkur og þinghaldið fram undan talsvert langt, þannig að ég vonast til þess að hv. utanríkismálanefnd setji það í forgang að koma málinu til umsagnar og taka það til umræðu.

Eins og hér hefur komið fram snýst þetta um að gefa neytendum nægar upplýsingar þannig að þeir geti valið með sínum innkaupum og sinni neyslu hvort þeir kjósa að styðja mannréttindi með því að styðja ekki við vörur frá ólögmætum byggðum. Þannig að þetta er eins og hér hefur verið sagt ekkert sérstaklega róttæk aðgerð, en hún getur haft eigi að síður mikið að segja, ekki síst á alþjóðavettvangi þar sem sum ríki hafa verið að taka upp slíkar aðgerðir en önnur ekki. Þar getur okkar rödd skipt máli þó að við séum ekki mörg.

Ég legg til að málinu verði vísað til hv. utanríkismálanefndar að lokinni umræðu.