146. löggjafarþing — 37. fundur,  1. mars 2017.

tekjuskattur.

85. mál
[18:40]
Horfa

Flm. (Vilhjálmur Bjarnason) (S):

Forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um tekjuskatt, nr. 90/2003, með síðari breytingum, þ.e. afnám svokallaðrar rúmmálsreglu.

Þetta hefur verið flutt tvisvar áður, á 144. og 145. löggjafarþingi, en kom ekki til afgreiðslu á þeim þingum. Efni frumvarpsins er það að fella úr 17. gr. laganna um tekjuskatt setningu sem er nánar afmörkuð í frumvarpinu og að laga aðrar málsgreinar samkvæmt því. En svokölluð rúmmálsregla snýst um skattlagningu og söluhagnað af fasteignum og er arfur frá gamalli tíð. Að meginreglu er söluhagnaður af fasteignum skattskyldur á söluári samkvæmt ákvæðum laga um tekjuskatt. Sú undantekning kemur fram í 17. gr. laganna. Ef maður hefur átt íbúðarhúsnæði í full tvö ár er söluhagnaður af því skattfrjáls. Þetta skattfrelsi takmarkast af því að söluhagnaður af þeim hluta húsnæðis sem er umfram 600 rúmmetra hjá einstaklingum eða 1.200 rúmmetra hjá hjónum, er að fullu skattskyldur, en þó ekki af því íbúðarhúsnæði sem viðkomandi býr í. Söluhagnaður er mismunur á söluverði og stofnverði að teknu tilliti til fenginna fyrninga og áðurfengins söluhagnaðar. Stofnverð er kostnaðarverð eigna.

Framangreind rúmmálsregla á rót sína að rekja til 4. töluliðar 3. gr. laga nr. 7/1972. Frumvarp það sem síðar varð að téðum lögum var á sínum tíma lagt fram með það fyrir augum að dreifa skattbyrðinni á réttlátari hátt en tíðkast hafði. Fyrir gildistöku rúmmálsreglunnar miðaðist skattfrelsið aðeins við eignarhaldstíma og jókst eftir því sem hann var lengri þar til fullu skattfrelsi var náð. Má gera ráð fyrir að rúmmálsreglunni hafi einkum verið ætlað að jafna stöðu þeirra eignaminni og þeirra sem meira áttu.

Til þess ber að líta að á þessum tíma var svokallaður verðbreytingarstuðull þannig að það mátti framreikna verð eignar miðað við verðbreytingar, en sú verðleiðrétting var felld út fyrir nokkrum árum úr skattalögum.

Það er mjög mismunandi hvernig skattlagningu söluhagnaðar íbúðarhúsnæðis eða afnotaréttar er háttað í okkar helstu samanburðarlöndum. Í Danmörku eru mörk skattlagningar miðuð við tiltekið flatarmál. Enga slíka reglu er að finna í norskri löggjöf heldur er aðeins miðað við tíma eignarhalds. Í sumum fylkjum Bandaríkjanna er frítekjumark á söluhagnaði af íbúðarhúsnæði. Enginn skattur er lagður á slíkan söluhagnað í Bretlandi. Má ætla að þessi mismunur á skattlagningu ráðist af aðstæðum á hverjum stað.

Um langa hríð hefur bróðurpartur eignamyndunar landsmanna átt sér stað við kaup og eignarhald á íbúðarhúsnæði. Að starfsævi lokinni er algengt að menn minnki við sig og innleysi sparifé með sölu húseigna. Því fé sem er innleyst á þennan hátt er oft ætlað að standa undir rekstri heimilis viðkomandi þegar líður á ævikvöldið. Það er því ekki að undra að rúmmálsreglan hefur komið nokkuð illa niður á eldri borgurum sem eru sestir í helgan stein og njóta ekki lengur atvinnutekna.

Með frumvarpinu er lagt til að framangreind rúmmálsregla verði felld brott úr lögum um tekjuskatt. Verði það samþykkt mun skattskylda söluhagnaðar af sölu íbúðarhúsnæðis aðeins ráðast af tíma eignarhalds, hvort það hafi varað í tvö ár eða skemur.

Virðulegi forseti. Þetta frumvarp er í rauninni tilraun til að nálgast það að skattleggja eignabreytingar sem verða af tekjum, en þessi skattstofn verður ekki af tekjum heldur af verðbólgu og getur aldrei orðið réttlátur skattstofn. Það sem meira er að þessi ákvæði koma sjaldnast til álita við skattlagningu, kann að vera einu sinni á nokkurra ára fresti, þá í mjög óþægilegum og kjánalegum tilfellum. Þannig að hér er í rauninni verið að reyna að leita einhvers réttlætis svo menn skattleggi tekjur en ekki verðbólgu.

Virðulegi forseti. Ég lýk máli mínu.