146. löggjafarþing — 37. fundur,  1. mars 2017.

brottnám líffæra.

112. mál
[19:31]
Horfa

Flm. (Silja Dögg Gunnarsdóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta er áhugavert andsvar. Ég á ekki sæti í velferðarnefnd þannig að ég hef ekki hugmynd um það hvernig nefndin mun takast á við þetta mál. Þetta er góð ábending sem ég geri ráð fyrir að velferðarnefnd taki til skoðunar þegar hún tekur málið til umfjöllunar. Það eru kannski ekki margir sem gætu mögulega lent í þessari aðstöðu. Ég veit ekki hvernig væri best að afgreiða það lagalega séð, jafnvel með lögfestu skjali eða slíku sem viðkomandi myndi ræða, ekki bara við ættingja sína sem hann veit að eru með þessar trúarskoðanir heldur líka við nána vini og aðra sem standa honum nærri sem gætu þá komið því á framfæri ef þessi staða kæmi upp.

Eins og ég var að tala um áðan er gagnagrunnur nauðsynlegur en hann dugar ekki einn og sér. Öll samfélagsleg umræða og samtal við eldhúsborðið, samtal við vini og fjölskyldu, einfaldar ferlið ef til kemur og verður til þess að skilningur eykst og fólk verður viljugra til þess að gefa líffæri, held ég. Maður fer að hugsa þetta út frá því hvað maður myndi sjálfur vilja gera. Myndi ég vilja þiggja líffæri? Myndi ég vilja að barnið mitt, eiginmaður eða vinir mínir fengju líffæri ef þeir myndu þurfa þess? Já, ég myndi vilja það. Ef maður getur hugsað sér að þiggja þá á maður að geta hugsað sér að gefa. Um leið og fólk fer að hugsa svona náum við að fjölga líffæragjöfum, en við þurfum líka að breyta lögunum.