146. löggjafarþing — 37. fundur,  1. mars 2017.

þjóðfáni Íslendinga og ríkisskjaldarmerkið.

117. mál
[19:43]
Horfa

Flm. (Silja Dögg Gunnarsdóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þm. Kolbeini Óttarssyni Proppé fyrir afar áhugavert andsvar. Ég get svarað því til að í þessari vinnu hefur sú hugmynd ekki komið upp að rýmka reglurnar, ganga enn lengra og hafa engar reglur um þjóðfánann. Ég hef ekki átt sæti í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd en það er sú nefnd sem hefur haft þetta frumvarp til umfjöllunar þegar það hefur komist alla leið til nefndar. Það sem ég hef heyrt innan úr nefndinni er í raun að menn séu almennt mjög íhaldssamir og vilji helst engu breyta. Það að rýmka reglurnar á þann hátt að fáninn megi vera við hún allan sólarhringinn á bjartasta tíma ársins er stór biti fyrir mjög marga að kyngja. Ég held því að við ættum að byrja á litlu skrefunum og þetta er eitt þeirra. Markmið frumvarpsins er náttúrlega að fáninn sé sýnilegri. Ég sæi það fyrir mér miðað við þá hugmynd að fáninn megi vera við hún ef hann er upplýstur og þá líka í skammdeginu að fáninn okkar yrði víðar en hann er núna, til að mynda við stofnanir og hótel, hér er mikið af ferðamönnum.

Ég held að þetta sé mjög róttæk hugmynd fyrir marga og því skulum við byrja þarna og sjá hvort þetta fær afgreiðslu í hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd.