146. löggjafarþing — 37. fundur,  1. mars 2017.

þjóðfáni Íslendinga og ríkisskjaldarmerkið.

117. mál
[19:47]
Horfa

Flm. (Silja Dögg Gunnarsdóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Sýnileg mismunun með lýsingu á þjóðfána er áhugaverður punktur. Það kom fram áðan að hugmyndin með flóðlýsingu gildir tæpast við venjuleg íbúðahverfi þar sem ljósmengun yrði náttúrlega of mikil af flóðlýsingunni. Ég sæi ekki fyrir mér íbúðahverfi í Grafarvoginum og svo væri einn ríkur náungi með flóðlýstan fána og héldi vöku fyrir nágrönnunum. Ég sæi þetta frekar fyrir mér í opnari rýmum, eins og ég sagði áðan, kannski við hótel eða í atvinnuhverfum frekar en íbúðahverfum. Ég tel því (Gripið fram í.) tiltölulega litlar líkur á því að þetta muni verða mjög sýnileg mismunun eftir efnahag fólks. En þetta er gott að hafa í huga. Nefndin getur tekið til athugunar að passa upp á það.

Ég er sammála hv. þingmanni varðandi reglurnar sem við fylgjum. Um þær gildir það sama og aðrar reglur ef þær eru of flóknar og of margar, og maður lærir þetta sem foreldri þegar maður er að ala upp börnin sín, það er betra að hafa fáar reglur og fara eftir þeim. Það þarf að hafa fáar reglur og fara eftir þeim ef maður ætlar að ná árangri. Það hlýtur að gilda það sama um fánann, það þarf að fækka reglunum, einfalda þær og fara eftir þeim svo að fólk taki raunverulega mark á þeim.

Ég segi að við eigum samt að fara varlega og hugsa það vel þegar við breytum reglum um þjóðfánann. Við eigum að sýna fánanum virðingu á öllum tímum. Veðurfarið er náttúrlega mjög erfitt hér og fer illa með fána og við þurfum að hafa það í huga. En ég er spennt að sjá umsagnir sem berast nefndinni á næstu vikum.