146. löggjafarþing — 38. fundur,  2. mars 2017.

kostnaður við breytingu á Stjórnarráðinu.

[10:34]
Horfa

forsætisráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Það er sjálfsagt að segja frá því að þessi tala kemur mér á óvart og mér finnst hún í raun og veru ekki koma til greina. Mér finnst ekki koma til greina að við leggjum upp með að það þurfi þegar ekki er verið að bæta við ráðherra, þegar ekki er verið að bæta við nýjum bíl og bílstjóra, þegar ekki er verið að bæta við í sjálfu sér nýjum ritara, heldur eingöngu verið að gera aðskilnað á milli tveggja ráðuneyta. Það er ekki verið að bæta við nýju húsnæði eða neinu slíku og þá finnst mér ekki koma til greina að lagt sé upp með það af hálfu ráðuneytisins að eftir aðskilnaðinn þurfi að kosta yfir 100 milljónum meiru til til þess að starfsemi geti haldið áfram óbreytt. Það finnst mér ekki koma til greina. Það er alveg ábyggilegt að það voru ekki slíkar tölur sem voru nefndar til sparnaðar þegar gömlu ráðuneytunum var smellt saman inn í nýtt ráðuneyti.

Þess vegna vil ég láta þess getið á þessu stigi að mér finnst ekki koma til greina að halda áfram með málið á þeim forsendum. Þetta þarf að hugsa aftur og betur. Ég tek fram í því sambandi, eins og vísað var til, að ég geri mér grein fyrir því að þetta mun kosta einhver störf, t.d. eins og það að auglýsa stöðu ráðuneytisstjóra. Auðvitað er verið að kosta einhverju til. En ég geri þá kröfu til stjórnkerfisins í heild sinni, og í þessu tilfelli Stjórnarráðsins, að menn leiti sífellt leiða til sparnaðar og grípi ekki tækifærin til þess að bæta við sig meira en aðstæður kalla á.