146. löggjafarþing — 38. fundur,  2. mars 2017.

samstarf við breytingar á lífeyrissjóðakerfinu.

[10:43]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Ég get alveg tekið undir að það er göfugt markmið að reyna að huga að hagsmunum heildarinnar. En auðvitað er það þannig að í þessum risastóru félögum eru sérfélög sem eru með mjög sérstakt vinnuumhverfi og öðruvísi álag en aðrir. Í ljósi þess að ég hef einmitt heyrt hæstv. forsætisráðherra ræða um nýtt vinnumarkaðsmódel væri mjög gagnlegt að fá frekari upplýsingar. Ég geri mér grein fyrir að ekki er hægt að reifa þær hér á svona stuttum tíma en mundi vilja vita hvernig hæstv. ráðherra sér fyrir sér að það líti út og hvort hægt sé að fá nánari upplýsingar um það og á hvaða stað það er komið í þinginu þannig að við getum skoðað það. Ég vona að það verði eitthvert samráð við alla aðila, þar á meðal þingið.