146. löggjafarþing — 38. fundur,  2. mars 2017.

greiðsluþátttaka einstaklinga í heilbrigðiskerfinu.

[10:46]
Horfa

Lilja Alfreðsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Í stjórnarsáttmálanum er þess getið að stefnt skuli að því að minnka greiðsluþátttöku einstaklinga í heilbrigðisþjónustunni. Ég fagna þessari yfirlýsingu enda er þetta eitt af þeim málum sem Framsóknarflokkurinn leggur ríka áherslu á. Auk þess viljum við að aðgengi að heilbrigðisþjónustu sé ekki háð efnahag sjúklinga. Því miður eru allt of mörg mál sem hafa komið upp þar sem kostnaður sjúklinga er verulega íþyngjandi og var einmitt fjallað um eitt slíkt mál núna í vikunni í fjölmiðlum.

Við Framsóknarmenn höfum talað fyrir því að setja sameiginlegt þak á sjúkrakostnað, lyfjakostnað og stoðkostnað. Ég spyr því hæstv. heilbrigðisráðherra hvað honum finnist vera sanngjarnt þak á greiðsluþátttöku sjúklinga í krónum talið og hvort verið sé að skoða að gera eitt sameiginlegt greiðsluþak.