146. löggjafarþing — 38. fundur,  2. mars 2017.

greiðsluþátttaka einstaklinga í heilbrigðiskerfinu.

[10:47]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Óttarr Proppé) (Bf):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir mikilvæga spurningu. Greiðsluþátttaka í heilbrigðiskerfinu er mjög mikilvægt mál. Við fengum óþyrmilega ábendingu í skýrslu frá ASÍ á síðasta ári sem sýndi fram á að á síðustu 20–25 árum hefur hlutfall einstaklinga í kostnaðarþátttöku heilbrigðiskerfisins á Íslandi aukist um helming eða meira, upp í hátt í 18% þegar mest var. Góðu fréttirnar eru að þetta hefur aðeins minnkað. Það er skýr stefna ríkisstjórnarinnar að lækka þetta hlutfall.

Við vitum líka að kostnaðarþátttökuhlutfallið er mjög misjafnt eftir því við hvað á. Við vitum að hátt hlutfall er í tannlæknakostnaði, í sálfræðikostnaði og það hefur verið misjafnt eftir því hvaða meðferð hefur þurft, við hvaða sjúkdóma menn hafa glímt, hvert kostnaðarhlutfallið er. Fyrir utan það stóra markmið að lækka meðaltalskostnaðarhlutfallið er náttúrlega mjög mikilvægt að taka á þessu ójafnræði á milli einstaklinga eftir því hvaða meðferð þeir þurfa.

Eins og þingmaðurinn veit erum við að taka í gagnið nýtt greiðsluþátttökukerfi sem var samþykkt á Alþingi í fyrra. Því miður þurfti að fresta því að taka kerfið í gagnið vegna þess hreinlega að tölvukerfi og annað var ekki tilbúið til að taka það í gagnið fyrr en 1. maí. En þar er gert ráð fyrir að lækka þakið, jafna það og lækka.

Ég verð því miður, af því að ég sé að ég er búinn með tímann, að koma betur í seinna svari inn á (Forseti hringir.) hugmyndir mínar um upphæðir.