146. löggjafarþing — 38. fundur,  2. mars 2017.

ívilnandi samningar vegna mengandi stóriðju.

[10:53]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Í stjórnarsáttmálanum segir það skýrt sem hv. þingmaður fór yfir. Það er auðvitað það sem við ráðherrar vinnum eftir. Það er alveg rétt sem kemur fram að rammalögin eru rammalög, sem þýðir að ef eitthvert verkefni uppfyllir þau skilyrði hlýtur að vera lögfræðilega erfitt að fara í miklar tilfærslur þar á.

Ég er að láta skoða í ráðuneytinu annars vegar hvort þurfi að breyta löggjöfinni til þess að uppfylla þann vilja og væntingar sem við höfum til framtíðarverkefna og hins vegar að setja einhverja skilgreiningu á því hvað sé mengandi stóriðja. Við vitum alveg eða ég ímynda mé að þetta gráa svæði er ekki mjög stórt. Ég held að flest verkefni myndu annaðhvort flokkast sem mengandi stóriðja ef þau losa X-mikið af CO2 eða ekki. Þetta er vinna sem er í gangi í ráðuneytinu. Ef við þurfum að fara í einhverjar breytingar mun ég koma með þær inn í þingið.