146. löggjafarþing — 38. fundur,  2. mars 2017.

málefni Seðlabankans og losun hafta.

[10:57]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Virðulegur forseti. Við myndun ríkisstjórnarinnar voru málefni Seðlabankans flutt úr fjármála- og efnahagsráðuneytinu yfir í forsætisráðuneytið. Í svari við fyrirspurn frá vefmiðlinum Kjarnanum um hvers vegna þetta hefði verið gert upplýsti hæstv. forsætisráðherra að það væri vegna þess að sjálfstæðis Seðlabankans vegna væri æskilegt að yfirstjórn hans og samþykkt peninga- og gengisstefnu væru í öðru ráðuneyti en því sem færi með fjármál ríkisins.

Spurningin er þessi, virðulegi forseti: Hvenær uppgötvaði hæstv. forsætisráðherra þetta? Var það áður en hann tók við embætti fjármálaráðherra eða á meðan hann starfaði sem fjármálaráðherra? Þegar slíkir hagsmunaárekstrar komu upp í tíð hans sem fjármálaráðherra, hagsmunir hvors urðu þá ofan á, fjármálaráðuneytisins eða Seðlabankans?

Ég spyr um þetta núna vegna þess að um leið ætla ég að spyrja um stórt mál, mikið hagsmunamál þar sem kunna að vera ólíkar áherslur milli Seðlabankans og fjármálaráðuneytisins og svo forsætisráðuneytisins en það er hvort hverfa eigi frá þeirri stefnu sem mörkuð var og fylgt eftir á síðasta kjörtímabili varðandi losun hafta og uppgjör við kröfuhafa. Ég spyr vegna frétta um að til standi að semja við kröfuhafa sem ekki vildu taka þátt í útboðinu sem fram fór á síðasta ári um að hleypa þeim út fyrr en áformað var. Eins og hæstv. ráðherra man var það grunnforsenda útboðsins, sem reyndar hefði átt að fara fram miklu fyrr, að allir væru meðvitaðir um að þeir sem ekki væru tilbúnir til að taka þátt í því sætu eftir, færu síðastir út og hefðu þar af leiðandi hag af því að taka þátt í útboðinu. Er það sem sagt stefnan núna að hverfa frá þeirri ákvörðun? (Forseti hringir.) Hver er afstaða forsætisráðuneytis, Seðlabanka og fjármálaráðuneytis til þess?