146. löggjafarþing — 38. fundur,  2. mars 2017.

málefni Seðlabankans og losun hafta.

[10:59]
Horfa

forsætisráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Frú forseti. Það er ágætt að nota Kjarnann sem heimild en sjálfsagt að bæta við, þegar spurt er um rökin fyrir að færa Seðlabankann til forsætisráðuneytisins — og vissulega eru þetta ein rökin, þ.e. að með tiltölulega nýrri lagabreytingu sá maður að það getur haft þýðingu fyrir sjálfstæði Seðlabankans að eiga ekki um of undir fjármálaráðuneytinu í fjárhagslegum samskiptum þessara tveggja aðila. Þar er ég meðal annars að vísa til þess að Seðlabankinn getur við vissar aðstæður kallað eftir framlagi frá ríkinu. En það er bara eitt atriði af mörgum. Ég hef í hyggju að lyfta upp því hlutverki forsætisráðuneytisins að hafa með hagstjórn almennt að gera og ráða inn í ráðuneytið sérfræðinga til að sinna því hlutverki sömuleiðis. Í tengslum við það er ekki óeðlilegt að Seðlabankinn heyri undir forsætisráðuneytið eins og hann hefur svo oft gert í gegnum tíðina.

Hér er spurt hvort áherslur hafi breyst við stjórnarskiptin þegar kemur að áætlun um losun haftanna. Stutta svarið er að það eru ekki neinar áherslubreytingar. Það er alveg rétt, sem hér var rakið, að það voru búnir til sérstakir reikningar sem eru háðir takmörkunum fyrir þá sem ekki tóku þátt í útboðinu. Við fylgdum þessari áætlun reyndar eftir í haust og síðan aftur um áramótin með því að við byrjuðum að losa höftin á innlenda markaðinn. Einstaklingar eru nú frjálsir að því að flytja fjármuni milli landa langt umfram það sem áður gilti. Og eins og um var rætt í frumvarpi sem lagt var fyrir þingið um mitt síðasta ár er Seðlabankinn núna með stjórnvöldum að vinna að því að þróa næstu skref í þessari áætlun. Það hlýtur að koma þá í þeirri vinnu til skoðunar hvernig menn munu mögulega taka á aflandskrónuhlutanum en á sama tíma gæta að því að opna fyrir möguleika fyrir frekara og reyndar fullt afnám hafta sem allra fyrst.