146. löggjafarþing — 38. fundur,  2. mars 2017.

staða og stefna í loftslagsmálum.

205. mál
[11:15]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg):

Virðulegi forseti. Mig langar að byrja á því að hrósa hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra, bæði fyrir ýmislegt sem hæstv. ráðherra sagði í ræðu sinni og ég get heils hugar tekið undir en ekki síst fyrir þann nýja tón sem kveður við í skýrslunni sem við erum að ræða hér. Það er hressandi, svo ekki sé meira sagt, að lesa plagg í umhverfis- og loftslagsmálum þar sem horft er raunsætt á stöðuna, þar sem ekki er endilega verið að draga fjöður yfir eða skreyta sig með stolnum fjöðrum. Ég vil hrósa hæstv. ráðherra fyrir það, þrátt fyrir að alþjóðlegi hrósdagurinn hafi verið í gær er ágætt að framlengja hann. Setningar eins og, með leyfi forseta: „Það er ekki endalaust hægt að vísa til hitaveituvæðingar fortíðarinnar sem dæmi um framsækni Íslands í loftslagsmálum“, hljóma vel. Það er það sem við höfum dálítið gert, síðast bara í áætlun um orkuskipti í samgöngum þar sem fyrsta setning í greinargerð er einmitt nokkuð hrós um þetta.

Mig langar að tala um það sem við þurfum að gera, eins og hæstv. ráðherra kallaði eftir. Ég er sammála hæstv. ráðherra að það þurfi vilja til. Ég fagna þeim vilja sem hæstv. ráðherra sýnir. Sumt af því sem þarf að gera er minnst á í umræddri skýrslu en það verður að segjast eins og er að það skortir nokkuð á að fyrir liggi hvað eigi að gera, hverju það muni skila í minni útblæstri og hver kostnaðurinn við það verði. Það verður væntanlega til í því samtali sem við munum eiga og þeirri vinnu sem verður í framhaldinu af því. Kostnaðurinn er ekki síst mikilvægur. Það er nefnilega lítið mál að setja fram hástemmdar yfirlýsingar um það hvernig við ætlum að ná undraverðum árangri í umhverfismálum, en ef beinskeitt aðgerðaáætlun með eyrnamerktum kostnaði liggur ekki fyrir er ekki von á miklum aðgerðum.

Ég held t.d. að það hafi verið þáverandi hæstv. umhverfisráðherra Guðmundur Bjarnason sem fyrstur nefndi það sem aðgerð í loftslagsmálum að það yrði að gera flotanum kleift að nýta rafmagn í höfnum landsins. Það var árið 1995 og enn er það ekki orðið að veruleika.

Skýrsla hæstv. umhverfisráðherra er fín fyrir sinn hatt, fínn umræðugrundvöllur. En hvað er þar t.d. að finna um fjármögnun? Það er afskaplega rýrt og raunar er komið inn á það í skýrslunni sjálfri, með leyfi forseta:

„Lítið hefur verið um að sérstakar fjárveitingar hafi verið eyrnamerktar loftslagsmálum í gegnum tíðina, en mörg þróuð ríki hafa einhvers konar fjármagnaðar verkefnaáætlanir til að efla nýsköpun og lausnir til að ná markmiðum um minnkun losunar.“

Þá er hér minnst á tilkomu sóknaráætlunar í loftslagsmálum, 250 millj. kr. árlega og fleira slíkt, og talað um væntanlegar tekjur ríkisins af sölu á ETS-heimildum á evrópskum markaði, sem er vel.

Það hefði verið heppilegt ef loftslagssjóði, sem komið var á fót á kjörtímabilinu 2009–2013 hefði ekki verið kippt úr sambandi af hæstv. síðustu ríkisstjórn. Hefði það ekki verið gert hefðum við haft meiri fjármuni milli handa til að vinna að þessum málum og styðja við nýsköpun.

Það er gott út af fyrir sig að teikna upp stöðuna og gera sér grein fyrir því að við munum ekki ná markmiðum um Kyoto-bókunina fyrir árið 2020 þrátt fyrir séríslenskt ákvæði, eins og sagt er nokkuð skýrt í þessari skýrslu. Það er vel að hæstv. umhverfisráðherra geri sér grein fyrir því og komi inn á það í skýrslunni. Það er ljóst að á næstu árum þarf t.d. stóriðjan að auka útgjöld sín til kaupa á ETS-heimildum því að það er morgunljóst að verð á þeim mun hækka. Það verður athyglisvert að sjá hvernig stóriðjufyrirtæki, sem standa ekki öll allt of vel að eigin sögn, takast á við þennan aukna kostnað því að ekki kemur til greina að ríkið komi þar að, eða hvað?

Talandi um stóriðjuna er fagnaðarefni að hæstv. ráðherra tali á þeim nótum sem hún gerir varðandi hana. Eins og kemur fram í nýframlagðri skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands um loftslagsmál verður trauðla dregið þar úr útblæstri, annarra leiða þarf því að leita. En hver er stóra myndin? Hvað þurfum við sem samfélag að gera? Við þurfum að samþætta þær aðgerðir og stefnur sem við höfum lagt fram. Áætlun um orkuskipti í samgöngum þarf að tala saman við allar aðrar áætlanir. Hvernig ætlum við að ná þeim markmiðum að 2025 geti öll skip í höfnum tengt sig í samband? Hvernig tengist það áætlun um raforkulínur? Ég efast um að það verði búið að styrkja raforkukerfið þannig árið 2025 að það verði hægt.

Við þurfum öll að taka höndum saman, við þurfum fjármagnaða aðgerðaáætlun, við þurfum samvinnu allra stjórnsýslustiga, við þurfum alvörusamráð við sveitarfélög, atvinnulífið, koma loftslagsmálum betur inn í menntakerfið. Það á ekki að skipta máli hvaðan góðar hugmyndar koma. Tökum stjórnkerfið allt til endurskoðunar, setjum umhverfismálin í forgrunn, vinnum saman, sama hvar í flokki sem við stöndum og sama hvaðan sem hugmyndirnar koma. Þetta er jú umhverfi okkar allra.