146. löggjafarþing — 38. fundur,  2. mars 2017.

staða og stefna í loftslagsmálum.

205. mál
[11:57]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg):

Herra forseti. Við ræðum hér skýrslu hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra um stöðu og stefnu í loftslagsmálum. Fyrir það fyrsta vil ég þakka hæstv. ráðherra fyrir skýrsluna og ekki síst fyrir að vera hreinskiptin um það hve skelfileg staða Íslands í loftslagsmálum er. Hæstv. ráðherra umhverfis- og auðlindamála dregur ekki fjöður yfir þá staðreynd að hér hafi stjórnvöld verið værukær í besta falli þegar kemur að loftslagsmálum og aðgerðum til að sporna við breytingum. Ráðherra er afar raunsæ þegar kemur að stöðunni og því risavaxna átaki sem Íslendingar þurfa að einhenda sér í þegar kemur að því að snúa þróuninni við. Þessi orð hæstv. ráðherra ríma við nýútkomna skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands um Ísland og loftslagsmálin. Hver er þróunin? Losun gróðurhúsalofttegunda jókst hér á landi á árunum 1990–2015 um 26%. En á sama tíma hefur losun gróðurhúsalofttegunda dregist saman um 24% í 28 ríkjum Evrópu. Þarna er um að ræða 50% mun á útblæstri gróðurhúsalofttegunda hér á landi og í þeim ríkjum.

Ráðherra segir í skýrslu sinni að vinna við aðgerðaáætlun í loftslagsmálum til ársins 2030 sé enn á teikniborðinu og sé ekki enn formlega hafin. Ég vil hvetja hæstv. ráðherra og sérfræðinga umhverfis- og auðlindaráðuneytisins til góðra verka þar og mér sýnist að það sé góð leið, eins og lagt er til í skýrslunni, að samhæfa sóknaráætlun í loftslagsmálum við aðgerðaáætlunina. Ég vona sannarlega að aðgerðaáætlunin líti dagsins ljós sem fyrst og ég fagna því að unnið verði áfram af kappi við aðgerðaáætlunina sem sett var á fót af hálfu ríkisstjórnar Vinstri grænna og Samfylkingarinnar árið 2010.

Mig langar til að vara hæstv. ráðherra við að binda of miklar vonir við að endurheimt votlendis sé einn af lykilþáttum aðgerða til að sporna við loftslagsbreytingum. Vissulega eru það góðar aðgerðir til stuðnings við aðrar, en það er ljóst að vísindi sem eru lögð til grundvallar mati á losun á votlendi og árangurinn af þeim aðgerðum eru mun skemur á veg komin en til að mynda varðandi landgræðslu og skógrækt.

Einnig vil ég vara hæstv. ráðherra við því að treysta um of á markaðslausnir þegar kemur að losunarkvótum, sem eru, eins og hæstv. ráðherra umhverfis- og auðlindamála hefur væntanlega kynnt sér, afar umdeild leið til þess að losa ríki undan þeirri grunnskyldu sinni að minnka gróðurhúsalofttegundir og útblástur þeirra.

Almenn samstaða um róttækar aðgerðir til að sporna við loftslagsbreytingum er lykilatriði hér sem annars staðar. Það á ekki síst við um núverandi ríkisstjórn. Mér er því miður til efs að allir ráðherrar hennar gangi í sama takt og hæstv. umhverfisráðherra þegar kemur að áherslum á raunhæfar aðgerðir til að sporna gegn loftslagsbreytingum. Til að mynda hef ég ekki heyrt hæstv. ráðherra samgöngumála, Jón Gunnarsson, tala mikið um nauðsyn almannasamgangna eftir að hann varð ráðherra. En ráðherrann hefur talað mun meira um að forgangsraða framar mislægum gatnamótum á höfuðborgarsvæðinu þegar kemur að samgöngubótum á fjölmennasta svæði landsins. Allir ráðherrar ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks, Bjartrar framtíðar og Viðreisnar eru sammála yfirlýsingu ríkisstjórnar í stjórnarsáttmálanum þar sem segir, með leyfi forseta:

„Ekki verður efnt til nýrra ívilnandi fjárfestingarsamninga vegna uppbyggingar mengandi stóriðju.“

Þessi orð hefur hæstv. umhverfisráðherra ítrekað.

Hæstv. umhverfisráðherra talaði líka í ræðu sinni um græna skatta og að fjölga þurfi grænum sköttum innan skattkerfisins. Þar erum við sammála, en ég efast um að allir ráðherrar ríkisstjórnarinnar séu sammála þeim áherslum. Skemmst er að minnast blaðagreinar hæstv. dómsmálaráðherra Sigríðar Á. Andersen sem skrifaði í Morgunblaðið um græna hvata þann 12. febrúar síðastliðinn. Í blaðagreininni dró ráðherrann græna skatta og græna hvata og styrki í efnahags- og hagkerfinu verulega í efa og varaði beinlínis við þeim, þvert á stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar.

Frú forseti. Loftslagsbreytingar eru dauðans alvara. Ísland verður að hysja verulega upp um sig buxurnar og gera mun betur í mótvægisaðgerðum þegar kemur að loftslagsbreytingum. Um það vitnar ný skýrsla Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands um loftslagsmál. Þar er myndin afar dökk, svo ekki sé meira sagt. Ísland þarf að axla ábyrgð og við verðum öll að leggjast á árarnar og gera mun betur en gert hefur verið síðastliðin ár, og ekki bara til að rétta við orðspor Íslands á alþjóðavettvangi, sem er viðbúið að muni ekki verða beysið. Samkvæmt bæði skýrslu hæstv. ráðherra og skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands um loftslagsmál þarf nánast kraftaverk til að Ísland uppfylli sínar alþjóðlegu skuldbindingar eins og Kyoto-samkomulagið og nýlega undirritun Parísarsamkomulagsins.

En loftslagsmál og skuldbindingar okkar á alþjóðavettvangi snúast ekki bara um orðspor heldur líka um lífsgæði og lífvænlegt umhverfi og samfélag framtíðarkynslóða því að loftslagsbreytingar og áhrif þeirra eru stærsta verkefni mannkyns nú um mundir, og ég dreg ekkert úr þeim dramatísku orðum.