146. löggjafarþing — 38. fundur,  2. mars 2017.

staða og stefna í loftslagsmálum.

205. mál
[12:03]
Horfa

Einar Brynjólfsson (P):

Virðulegur forseti. Við ræðum skýrslu umhverfis- og auðlindaráðherra um stöðu og stefnu í loftslagsmálum. Þessi skýrsla er að sumu leyti furðulegt plagg; fullt af þversögnum, farið um víðan völl, slegið úr og í. Ég ætla að leyfa mér að vitna í þessa ágætu skýrslu, með leyfi forseta:

„Ísland stendur að mörgu leyti vel með tilliti til loftslagsmála. Helsta sérstaðan er að nær öll raforkuframleiðsla og húshitun nýtir endurnýjanlega orkugjafa. Því fer þó fjarri að staða Íslands sé að öllu leyti góð. Losun gróðurhúsalofttegunda er um 14 tonn af ígildum koldíoxíðs á hvern íbúa hér á landi en er 4,9 tonn á heimsvísu, 7,4 tonn að meðaltali í ríkjum Evrópusambandsins (ESB) og 13 tonn að meðaltali í ríkjum OECD.

Losun hefur aukist um 26% á Íslandi frá 1990 til 2015. Á sama tíma hefur losun dregist saman um 24% samtals í 28 ríkjum ESB. Nýbirt spá í skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands (HHÍ) bendir til að losun geti aukist um 53–99% hérlendis til 2030 en ívið minna, eða 33–79%, ef tillit er tekið til kolefnisbindingar með landgræðslu og skógrækt. Líklega eru fá eða engin dæmi um jafn mikla fyrirsjáanlega aukningu í losun til 2030 hjá öðrum þróuðum ríkjum.“

Þetta eru alvarlegar fréttir sem þarna er að finna, og ég held áfram, með leyfi forseta:

„Nýjustu losunartölur fyrir Ísland benda til að Íslendingar muni eiga erfitt með að standa við skuldbindingar sínar innan ramma Kyoto-bókunarinnar til 2020. Aðgerðaáætlun frá 2010 hefur miðað að því og fyrstu árin eftir að áætlunin gekk í gildi dróst losun saman nokkurn veginn í takt við væntingar. Nýjar losunartölur fyrir 2015 benda hins vegar til að losun standi í stað eða leiti upp á við á ný …

Langmest af aukningu losunar fram til þessa og í fyrirliggjandi spám er frá stóriðju. Sá iðnaður þarf að afla sér losunarheimilda innan viðskiptakerfis ESB (ETS) og losun er á ábyrgð fyrirtækjanna sjálfra. Þau þurfa að fá losunarleyfi og losunarheimildir og standa sjálf skil á sínu kolefnisbókhaldi innan ETS-kerfisins. Íslensk stjórnvöld bera svo beina ábyrgð á þeim hluta losunar sem er utan ETS. Þótt stjórnvöld þurfi ekki að bera beina ábyrgð á stóraukinni losun frá stóriðju stefnir engu að síður í að Ísland standi að óbreyttu hvorki við skuldbindingar sínar innan Kyoto-bókunarinnar til 2020 eða Parísarsamningsins til 2030.

Ísland hefur alla burði til að verða forysturíki í loftslagsmálum. Fá eða engin ríki hafa jafn góð tækifæri til að rafvæða samgöngur. Miklir möguleikar liggja í að auka kolefnisbindingu í jarðvegi og gróðri, draga úr losun frá framræstu votlendi og almennt í að bæta nýtingu náttúruauðlinda. Mörg íslensk fyrirtæki eru framarlega á sviði loftslagsvænnar tækni og endurnýjanlegrar orku. Meðvitund um loftslagsvandann og áhugi á lausnum hefur stóraukist á undanförnum misserum og æ fleiri sveitarfélög og fyrirtæki setja sér framsækna loftslagsstefnu.“

Virðulegi forseti. Þetta er með ólíkindum. Hér er öllu grautað saman, hér skiptist á bölsýni og bjartsýni. Sveitarfélög og fyrirtæki — þau setji sér framsækna loftslagsstefnu. Jú, jú, þau hafa gert það vissulega og það er stórkostlegt, það er frábært. En hvað með ríkisstjórnina? Hvað ætlar hún að gera í þessum málum? Jú, hér stendur að skýrslan fjalli um stöðu og stefnu. Stefnan er almennt loðin. Hún kemur inn á nokkra lykilþætti. Einn af þeim snýr að orkuskiptum og er vísað til þingsályktunartillögu ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra um aðgerðaáætlun í þeim efnum.

Hér er tillaga sem minnst er á. Það vakti athygli mína þegar ég las hana heita úr prentsmiðjunni að ég kannaðist við margt sem í henni stóð. Það rifjaðist upp fyrir mér að ég hafði lesið þetta allt saman í eldra plaggi frá fyrri ríkisstjórn, frá síðasta löggjafarþingi.

Virðulegi forseti. Þessi aðgerðaáætlun um orkuskipti er ekki tilefni til mikillar bjartsýni ef ég á að segja alveg eins og er. Hún er efnislega sambærileg þeirri gömlu. Það eru því sem næst sömu tölulegu gildin í henni. Orðalagi er hnikað til á stöku stað. Stærsta breytingin er sú að frestir eru framlengdir. Í gömlu aðgerðaáætluninni eru frestir greindir niður eftir efnisflokkum. Sumir eru til 1. janúar 2017, það er nú augljóslega svolítið seint að huga að því núna, aðrir og flestir eru til 1. janúar 2020, þ.e. í gömlu aðgerðaáætluninni. Í þeirri nýju hafa menn ákveðið að skapa sér örlítið meira svigrúm og nú skal þessu öllu lokið á fimm árum. Og það er heldur snautlegt ef ég á að segja eins og er, virðulegur forseti.

Ein breyting, sem ég tók eftir, er sú að þar sem talað er um að endurgreiða verði virðisaukaskatt fyrir hreinorkubifreiðar með fleiri en 22 farþega í nýju áætluninni er í þeirri gömlu talað um fleiri en 16 farþega. Á öðrum stað hefur eitt lítið ákvæði verið hreinsað út með öllu um hreinorkubifreiðar og forgang þeirra við samgöngumannvirki.

Virðulegi forseti. Hér er ekki nóg að gert. Við þurfum að gera meira, framtíð komandi kynslóða er í húfi.