146. löggjafarþing — 38. fundur,  2. mars 2017.

staða og stefna í loftslagsmálum.

205. mál
[12:20]
Horfa

félags- og jafnréttismálaráðherra (Þorsteinn Víglundsson) (V):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á því að fagna skýrslu hæstv. ráðherra um stöðu og stefnu í loftslagsmálum. Þetta er eitt mikilvægasta mál okkar tíma, mál sem ríkisstjórnin tekur mjög alvarlega og vill sýna mikinn metnað í. Þetta er málaflokkur þar sem við eigum að sýna mikinn metnað. Það er ekki nóg að vísa til þess í íslensku samhengi að við höfum gnótt hreinnar orku og stöndum okkur þar af leiðandi í alþjóðlegu samhengi ákaflega vel. Það er vissulega rétt staðhæfing en það er á svo fjölmörgum öðrum sviðum þar sem við stöndum okkur alls ekki neitt sérstaklega vel. Við þurfum að sýna meiri metnað og erum óttalegir orkusóðar, ef mætti orða það svo, einmitt kannski vegna þess hvað við eigum hreina og ódýra orku, en við förum ákaflega illa með hana. Þar þurfum við að huga að því hvað má betur fara í umhverfi okkar.

Ég kýs að líta á heiminn jákvæðum augum. Mér finnst mjög jákvætt að horfa upp á í þessu samhengi samspil alþjóðlegra skuldbindinga, alþjóðlegra samninga, það að þjóðir heims hafi komið að þessum vanda, við síðan einkaframtakið þar sem við sjáum spretta upp nýja tækni, nýja þróun á öllum á sviðum. Það sýnir okkur að þó svo að vandinn sé gríðarlega mikill og alvarlegur eigum við líka góð tækifæri til þess að taka á honum. Þar eigum við auðvitað að horfa til árangurs okkar hér, hvar við höfum náð góðum árangri og hvar við getum gert miklu betur. Við höfum náð frábærum árangri að mörgu leyti í sjávarútvegi. Bætt sóknarnýting samhliða hagkvæmari fiskiskipum hefur dregið verulega úr losun frá sjávarútvegi á undanförnum árum. Það er mjög jákvæð þróun.

Þó svo að vissulega sé það rétt sem hér er bent á, að losun frá stóriðju sé gríðarlega mikill þáttur í losunarbókhaldi okkar, má heldur ekki gleyma því að í hnattrænu samhengi hefur það líka jákvæðar hliðar, þ.e. við erum að spara losun sem ella yrði til annars staðar. Það ál sem héðan fer t.d. til að létta bifreiðar í Evrópu fyrst og fremst er sennilega framleitt með um fimmtungslosun af því sem væri á meginlandi Evrópu. Það dregur hins vegar ekki úr skyldu þeirra fyrirtækja að róa að því öllum árum að draga úr losun sinni og beita mótvægisaðgerðum því að það er auðvitað aldrei nóg að gert. En þar hefur líka náðst ágætur árangur að mörgu leyti.

Við erum með mjög skemmtileg verkefni fram undan í orkuiðnaði, sérstaklega þegar kemur að því að binda koltvísýring að nýju, hvort heldur sem er í bergi eða til að endurnýta í eldsneytisframleiðslu. Það eru virkilega spennandi verkefni sem við eigum að leggja mikinn metnað í að sinna á næstu árum.

Það sem ég held að skipti miklu máli í þessari nálgun er að við lítum á loftslagsmálin og þann mikla vanda sem við glímum við þar um leið sem okkar stærstu tækifæri. Þar hefur atvinnulífið á undanförnum árum breytt sýn sinni á málaflokkinn úr ógn við tilveru sína í stærstu tækifæri sín. Við sjáum að hér á landi, líkt og annars staðar, er að spretta upp fjöldi áhugaverðra sprotafyrirtækja sem hafa lífsviðurværi sitt af því að þróa umhverfistækni, að þróa leiðir til að draga úr losun á öllum vígstöðum. Þess vegna er svo mikilvægt að við sem þjóð sýnum metnað í þessum málum. Verum í fararbroddi í þeim efnum, hvort sem er í orkuiðnaði, orkuskiptum eða öðrum þeim þáttum sem við getum komið að. Ryðjum leiðina fyrir sprotafyrirtæki, fyrir þau umhverfistæknifyrirtæki sem eru að spretta upp. Við eigum að nálgast þetta viðfangsefni með svipuðum hætti og nágrannar okkar Danir sem horfa á þetta sem eitt stærsta tækifæri atvinnulífs, engan veginn einhverja ógn við hagvöxt eða velsæld í sínu ríki heldur þvert á móti uppsprettu nýrra tækifæra. Þar eigum við svo sannarlega mörg dæmi eins og Carbon Recycling, ReMake Electric eða Marorku, allt fyrirtæki sem hafa gert afskaplega góða og áhugaverða hluti á þessu sviði.

Það sem skiptir okkur líka miklu máli þegar kemur að umhverfismálum er hvað við eigum mikið annað undir hreinni og grænni ímynd þegar kemur að sjávarútveginum, hreinum matvælaiðnaði, umhverfisvænum matvælaiðnaði, ferðaþjónustunni okkar, þegar kemur að orkuiðnaðinum sjálfum og hvaða þekkingu tengda honum við getum notað til útflutnings, ef svo mætti að orða komast. Það er margt í aðgerðaáætluninni sem við getum horft til, hvort sem það eru mótvægisaðgerðir eða bindingar eins og landgræðsla og endurheimt votlendis eða til annarra þátta sem snúa að mjög metnaðarfullum markmiðum í orkuskiptum. Þar verðum við að sýna raunverulegan metnað. Við verðum að vera tilbúin sem þjóð að fjárfesta í innviðunum. Við verðum að vera tilbúin til að beita grænum sköttum til þess að knýja á um orkuskipti í samgöngum. Við verðum að vera óhrædd við að feta okkur áfram á þeim sviðum. Við verðum að sýna meiri metnað í landbúnaði, í matvælaframleiðslunni almennt og auðvitað verðum við að horfa til þess, sérstaklega núna með þeim mikla uppgangi sem er í ferðaþjónustunni, að ekki má gleyma þeirri losun sem þar er að aukast í raun og veru, m.a. í samgöngum á landi. Við þurfum að horfa til þess að greinin sjálf taki það upp, að eigin frumkvæði, í samblandi við græna skatta þegar kemur t.d. að orkuskiptum í samgöngum, að ná miklu betri árangri en raun ber vitni. Ég held að ferðaþjónustan þurfi ásamt öðrum atvinnugreinum að sýna mikið frumkvæði.

Viðfangsefnið er ærið, vandinn er mjög alvarlegur en um leið felast í honum stórkostleg tækifæri og þess vegna er mikilvægt að við sýnum metnað í þeim efnum.