146. löggjafarþing — 38. fundur,  2. mars 2017.

staða og stefna í loftslagsmálum.

205. mál
[12:27]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Frú forseti. Þessi umræða um skýrslu hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra um stöðu og stefnu í loftslagsmálum snýst um stærsta sameiginlega verkefni mannkynsins sem er að stöðva hlýnun jarðar. Stefna okkar Íslendinga og aðgerðaáætlanir okkar í þessu stóra máli eru og hafa verið afar óljósar. Stjórnvöld þurfa að tala skýrt og vera almenningi hvatning til að breyta hegðun sinni til að leggja sitt af mörkum. Ég fullyrði að fólkið í landinu vill gera sitt og taka þátt í þessu mikilvæga verkefni. Stjórnvöld þurfa að vísa veginn.

Lofttegundir spyrja ekki um landamæri. Þess vegna er Parísarsáttmálinn, Kyoto-bókunin og sjálfbærnimarkmið Sameinuðu þjóðanna svo mikilvæg. Þjóðirnar taka höndum saman til að snúa við afar slæmri þróun sem mun, ef ekki verða stöðvuð, valda eyðingu og dauða. Í þessu stóra og flókna máli verða stjórnmálamenn að viðurkenna vanmátt sinn og þora að fylgja ráðum yfirgnæfandi meiri hluta vísindamanna í heiminum. Ógnunin fyrir mannkynið felst m.a. í valdamiklum þjóðarleiðtogum sem draga í efa mikilvægi verkefnisins og niðurstöður vísindamanna.

Aukið magn koltvísýrings í andrúmsloftinu veldur tvennu; auknum gróðurhúsaáhrifum og því hlýnun jarðar og súrnun sjávar. Ég hef sagt að við Íslendingar ættum í raun að vera eins og grenjandi ljón í baráttunni fyrir því að draga úr koltvísýringi í andrúmsloftinu. Hagur okkar er mikill, bæði efnahagslega og samfélagslega þegar kemur að mengun hafsins og súrnun sjávar. Vísindamenn hafa bent á að súrnun sjávar muni hafa alvarlegri áhrif fyrir Ísland en hlýnunin sjálf í raun. Einn sjötti af fæðu mannkyns er fenginn úr sjónum.

Í skýrslu hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra er farið yfir rammann sem ESB-löndin, ásamt þremur öðrum ríkjum þar á meðal Íslandi, hafa sameinast um til að freista þess að ná árangri í átakinu gegn hlýnun jarðar. Átakinu er í stórum dráttum skipt í tvennt. Löndin hafa sameinast um viðskiptakerfi losunarheimilda, eða svokallað ETS-kerfi. Í því kerfi eru losunarfrekustu greinunum, svo sem orkuvinnslu, málmiðnaði og flugi, skammtaðir losunarkvótar sem geta gengið kaupum og sölum. Evrópa hefur verið leiðandi í samdrætti losunar, m.a. með viðskiptakerfi losunarheimilda, og þannig gert kröfu til iðnaðar innan Evrópu sem önnur lönd hafa ekki gert í sama mæli. Talað er um kolefnisleka þegar iðnaðurinn flýr Evrópu til þeirra landa þar sem engin gjöld eru á losun. Kolefnislekinn sýnir okkur hversu nauðsynlegt er að öll ríki heims sameinist um aðgerðir. Svo er það landsmarkmiðið þar sem hverju landi er ætlað að draga úr útblæstri þess hluta hagkerfisins sem ekki fellur undir ETS-kerfið, svo sem smærri iðnaður, umferð bíla, sjávarútvegur og landbúnaður.

Langstærsti losunarþátturinn á Íslandi er losun vegna framræsingar votlendis. Jafnvel þótt sá þáttur sé ekki í bókhaldinu yfir losun gróðurhúsalofttegunda hér á landi ættum við að grípa til aðgerða á því sviði strax. Bókhaldið er ekki aðalatriðið þó að það sé ekki mikilvægt stýritæki, eins og hæstv. ráðherra kom inn á í framsögu sinni áðan, heldur er mikilvægt að við breytum í samræmi við bestu upplýsingar um hvernig við náum árangri hér á landi. Mikilvægur þáttur er að bann verði sett á framræsingu votlendis strax og unnið að endurheimtu votlendis samhliða.

Við eigum einnig að geta náð góðum árangri í samgöngum. Í skýrslu hæstv. ráðherra er talað um að rétt sé að skoða orkuskipti sem stórt samfélagslegt verkefni á borð við hitaveituvæðingu Íslands. Ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna stigu ákveðin skref í þeim efnum með því að lækka vörugjöld á mengunarlitla bíla og með því að fella niður virðisaukaskatt af rafbílum. Nú hefur dregið úr sölu rafbíla þótt tvinnbílum fari enn fjölgandi. Ástæðan er fyrst og fremst sú að það er ekki aðgengi að hleðslustöðvum nógu víða. Ef samfélagslega verkefnið sem lýst er í skýrslunni á að takast fljótt og vel verður uppbygging hleðslustöðvakerfisins að vera í takt við þarfir rafbílaeigenda.

Endurskoðun búvörusamninga stendur yfir. Þar er gullið tækifæri til að leggja aukna áherslu á þátt landbúnaðarins í þessu stóra og mikilvæga máli. Þar á að grípa tækifærið til að auka greiðslur til landbúnaðar sem stuðlar að minni losun eða aukinni upptöku kolefnis í andrúmsloftinu.

Ég hvet hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra til að taka snaggaralega til hendinni og setja fram skýra og framsækna stefnu til að ná landsmarkmiðum fyrir Ísland fljótt og vel. Þótt orð séu til alls fyrst eru það verkin (Forseti hringir.) sem skipta mestu. Ég heiti hæstv. ráðherra stuðningi Samfylkingarinnar til að láta verkin tala í þessu máli.