146. löggjafarþing — 38. fundur,  2. mars 2017.

staða og stefna í loftslagsmálum.

205. mál
[12:43]
Horfa

Silja Dögg Gunnarsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Við ræðum nú stefnu hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra og stöðu loftslagsmála hér á landi. Umræðurnar eru góðar og innihaldsríkar og skemmtilegt að þær eigi sér stað á afmæli hæstv. ráðherra. Til hamingju með afmælið, ráðherra Björt Ólafsdóttir.

Síðar í dag munum við hafa sérstaka umræðu í þinginu um matvælaframleiðslu og loftslagsmál þannig að loftslagsmálin eru augljóslega þema dagsins í dag, sem er vel. Það kemur m.a. fram í skýrslunni að við búum við þau gæði að nær öll orkuframleiðsla til rafmagns og hitunar fer fram með endurnýjanlegum orkugjöfum. Það eru alger forréttindi og þar liggja tækifæri okkar Íslendinga. Rafmagn er tiltölulega ódýrt á Íslandi og með því að nota rafmagn í stað jarðefnaeldsneytis dregur bæði úr heilsuspillandi mengun og losun gróðurhúsalofttegunda.

Í skýrslu ráðherra er einmitt fjallað um nokkra lykilþætti þess að við náum árangri. Þar er talað um orkuskipti í samgöngum og sjávarútvegi. Vitnað er til skýrslu HHÍ sem staðfestir að orkuskipti í samgöngum eru verkefni sem klárlega á að vera í forgangi við að draga úr losun. Sú aðgerð getur beinlínis verið þjóðhagslega hagkvæm samkvæmt niðurstöðum HHÍ. Með þetta í huga ættum við skoða framlagða rammaáætlun. Við þurfum að skoða hvort þessir þættir hafa verið nægilega vel rýndir í vinnslu verkefnisstjórnar, þ.e. að stefna okkar í loftslagsmálum rími við stefnu okkar í virkjunarmálum.

Ég tek því undir spurningar hv. þm. Sigurðar Inga Jóhannssonar varðandi orkustefnu ríkisstjórnarinnar í þessum efnum.

Að þessu sögðu langar mig, hæstv. forseti, að staldra aðeins við verkefni sem snúa beint að landbúnaði og þá sérstaklega endurheimt votlendis. Í skýrslu ráðherra segir, með leyfi forseta:

„Það kemur loftslaginu augljóslega til góða ef hægt er að draga úr losun frá framræstu votlendi, óháð því hvernig það er fært til bókar gagnvart skuldbindingum ríkja. Í þessu ljósi er einboðið að endurheimt votlendis verður áfram þáttur í loftslagsstefnu stjórnvalda. Ljóst er þó að vísindin að baki mati á losun frá votlendi og árangri af aðgerðum eru skemur á veg komin en varðandi til dæmis landgræðslu og skógrækt. Nauðsynlegt er að efla vísindin að baki endurheimtar votlendis og mat á losun og árangri á næstu árum samhliða aðgerðum við endurheimt.“

Í þessu samhengi er rétt að geta þess að nú er um fjórðungur framræsts lands ekki í rækt. Því væri skynsamlegt að byrja á endurheimt þess svo verkefnið hafi sem minnst áhrif á ræktarland, a.m.k. þangað til við höfum betri upplýsingar. Kapp er oft best með forsjá.

Á síðasta ári var tæpur ferkílómetri af votlendi endurheimtur fyrir tilstuðlan stjórnvalda en samkvæmt skýrslu Hagfræðistofnunar um loftslagsmál á Íslandi væri hægt að endurheimta 900 ferkílómetra. Væri það gert myndi losun minnka svo um munar en 70% þeirra gróðurhúsalofttegunda sem losaðar eru af mannavöldum hér á landi koma frá framræstu votlendi.

Í fyrravor hófst þriggja ára átaksverkefni á vegum stjórnvalda og var það liður í sóknaráætlun þeirra í loftslagsmálum. Haft er eftir verkefnisstjóra verkefnisins — ég held að ég hafi séð þetta viðtal á RÚV — að verkefninu hafi ekki fylgt fjármagn til rannsókna eins og tillögur samráðshóps umhverfis- og auðlindaráðherra gerðu ráð fyrir.

Við getum lagt fram áætlanir. Við höfum sameiginlegan skilning á mikilvægi þess að setja loftslagsmálin í forgang og setja verkefni því tengd af stað. Á sama tíma verðum við, stjórnvöld, að gæta þess að fjármagn fylgi verkefnunum. Það gildir reyndar um öll þau mál sem við afgreiðum á Alþingi, en enn er mikil brotalöm á því að samræmi sé þar á milli, annars vegar þess sem við samþykkjum og hins vegar að fjármagn fylgi þá með verkefninu. (Forseti hringir.) Þetta er eitt af aðalatriðunum.

Við verðum að ná árangri í loftslagsmálum. Við höfum ekki tíma til að láta þau mæta afgangi.