146. löggjafarþing — 38. fundur,  2. mars 2017.

skýrsla um könnun á vistun barna á Kópavogshæli.

[14:01]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Frú forseti. Skýrsla vistheimilanefndar um hagi barna á Kópavogshæli á árunum 1952–1993 er viðamikil og afhjúpar afar slæman aðbúnað, ofbeldi og illa meðferð af ýmsum toga, eftirlitsleysi stjórnvalda og vanrækslu á svo mörgum sviðum. Allir voru slegnir óhug þegar hún var kynnt.

Það er mikilvægt að nota svona skýrslu til að læra af og því gríðarlega mikilvægt að skýrsluhöfundar setja þetta í samhengi við og koma með ábendingar og tillögur til úrbóta sem skipta máli nú í samtímanum. Mig langar að nota þetta tækifæri og þakka skýrsluhöfundum sérstaklega fyrir hana. Þarna er okkur stjórnmálamönnum fært mikilvægt tól til þess að bæta stöðuna og okkur ber skylda til þess að nota það.

Ég ætla að stikla á stóru í ábendingum úr skýrslunni. Fyrst vil ég nefna ofbeldi gegn fötluðum börnum en rannsóknir sýna að fötluð börn eiga frekar á hættu að verða beitt ofbeldi en önnur börn. Vistheimilanefnd sér ástæðu til að hvetja stjórnvöld til að rannsaka það frekar og grípa til markvissra aðgerða til að koma í veg fyrir það. Það ætla ég rétt að vona að við gerum og við höfum hér efni til að byggja á. Ég vil nefna nýlega skýrslu um ofbeldi gegn fötluðum konum en þar fjalla konurnar einnig um ofbeldi og nauðung sem þær voru beittar sem börn.

Nauðung er annað atriði sem ég vil gera að umfjöllunarefni. Nefndin bendir á að nauðsynlegt sé að gera úttekt á því hvernig tekist hefur til við framkvæmd laga nr. 59/2012 þar sem fjallað er um ráðstafanir til að draga úr nauðung í þjónustu við fatlað fólk. Hyggst ráðherrann skoða þau lög?

Þá tel ég að hæstv. ráðherra verði að skoða sérstaklega ákvæði í lögum um undanþágur frá því að beiting nauðungar sé bönnuð. Í skýrslunni vekur nefndin athygli á spurningum sem vaknað hafa um túlkun laganna þegar kemur að þjónustu við börn og vísað er í bréfaskriftir umboðsmanns barna og velferðarráðuneytisins frá árinu 2015. En það gengur ekki að fagaðilar sem annast börn, þótt tímabundið sé, þurfi ekki einu sinni að sækja um sérstaka undanþágu frá banni við beitingu nauðungar. Þetta er einfaldlega atriði sem verður að laga.

Það er sífellt verið að nota sömu afsakanirnar þegar kemur að brotalömum í þjónustu og þar af leiðandi aðbúnaði fatlaðs fólks, skorti á fjármagni og sem afleiðingu af því skorti á starfsfólki. Verði fjármagnið ekki aukið verður ekki hægt að bæta þjónustu við fólk, hvorki það sem nýtur þjónustu inni á heimili sínu samkvæmt lögum um málefni fatlaðs fólks og reglugerð um þjónustu við fólk á heimili sínu né heldur er hægt að koma á notendastýrðri persónulegri aðstoð þar sem raunverulegum þjónustuþörfum er mætt.

Af því að staðan á húsnæðismarkaði hefur svo margsinnis verið rædd í ýmsu samhengi verð ég að nefna að staðan í húsnæðismálum fatlaðs fólks er líka grafalvarleg. Það býr t.d. enn þá fólk í því húsnæði sem áður tilheyrði Kópavogshæli og það fólk býr því miður ekki við nógu góðan aðbúnað. Það er m.a. skortur á fjármagni sem gerir það að verkum að ekki hefur verið hægt að útvega því fólki viðeigandi húsnæði.

Ég vona að hæstv. ráðherra hafi áttað sig á þessu og muni beita sér fyrir því að auknir fjármunir verði settir í málaflokkinn og jafnframt að kostnaðarskipting málaflokksins milli ríkis og sveitarfélaga verði tekin til skoðunar.

Hæstv. forseti. Að lokum vil ég nefna réttindagæslumennina. Í skýrslu vistheimilanefndar kemur fram að nefndin hefur áhyggjur af því að ekki hafi tekist að ná markmiðum laga um réttindagæslu fyrir fatlað fólk og ég tek undir þær áhyggjur. Lengi hefur verið bent á að réttindagæslukerfið sé vanfjármagnað og sem afleiðing af því sé það of veikt og að réttindagæslumenn geti ekki fylgst markvisst með högum fatlaðs fólks og verið því innan handar. Sagan og svo þær brotalamir sem höfundar skýrslunnar benda á að séu á þjónustu samtímans undirstrika það enn fremur.

Ég veit að hæstv. ráðherra ætlaði að eiga fund með höfunum skýrslunnar og mig langar í þessu samhengi þess vegna líka að spyrja hæstv. ráðherra hvort sá fundur hafi verið haldinn og hvort ráðherrann hafi sett einhverja vinnu í gang til að bregðast við ábendingunum sem koma fram í skýrslunni.