146. löggjafarþing — 38. fundur,  2. mars 2017.

skýrsla um könnun á vistun barna á Kópavogshæli.

[14:12]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Frú forseti. Um leið og ég þakka hv. málshefjanda, Steinunni Þóru Árnadóttur, fyrir að hefja þessa umræðu vil ég einnig lýsa sárum vonbrigðum mínum yfir því að við þurfum nú að ræða enn eitt dæmið um skelfilegt ofbeldi stjórnvalda gagnvart skjólstæðingum sínum sem, eins og í svo mörgum öðrum málum, fékk að viðgangast í áraraðir án þess að nokkuð væri aðhafst.

Sinnuleysi, fjársvelti, fordómar og að því er virðist mannfjandsamlegt viðhorf kerfisins eru meðal þeirra þátta er liggja að baki síendurteknum málum sem þessum.

En helst af öllu er það skortur á eftirliti, skortur á málsvörum málleysingjanna og þeirra sem eiga erfitt með að bera hönd fyrir höfuð sér þegar réttindum þeirra er misboðið, jafnvel með kerfisbundnum hætti, sem veldur mér áhyggjum, frú forseti.

Enn höfum við enga sjálfstæða eftirlitsstofnun sem fylgist með og framfylgir réttarvernd þeirra sem minna mega sín þó að íslenskum stjórnvöldum hafi verið ljóst að hennar væri þörf hið minnsta frá árinu 1994, eftir fyrstu heimsókn Evrópunefndar gegn pyndingum hingað til lands. Þessu verður að breyta og það strax því að helst eru það þeir sem minna mega sín sem verða undir í kerfinu og þó að margt hafi áunnist á þeim árum sem liðið hafa frá því að hörmungunum á Kópavogshæli lauk er það enn svo að kerfið ver sig sjálft frekar en þá sem fyrir því verða.

Við megum ekki gleyma því, frú forseti, að það eru raunverulegar manneskjur á bak við hverja skýrslu eins og þá sem við ræðum hér nú, sem bera harm og skaða og sársauka út í lífið eftir slíka meðferð, að hvert barn sem rifið er frá heimili sínu og lokað af á stofnun án viðeigandi stuðnings, ástar og kærleiks verður fullorðinn einstaklingur með brotið hjarta og brotna sjálfsmynd.

Allt of oft enda þessir sömu einstaklingar og voru á Breiðavík, Kópavogshæli eða öðrum sambærilegum ómanneskjulegum stofnunum á braut afbrota og neyslu en fá í stað viðeigandi stuðnings og aðstoðar síendurtekna fangelsisvist að launum frá sama kerfi (Forseti hringir.) og braut í þeim hjartað.

Frú forseti. Ég vona að við höldum áfram að efla réttarvernd þeirra sem síst geta varið sig gegn kerfi sem alla jafna ver sig sjálft.