146. löggjafarþing — 38. fundur,  2. mars 2017.

skýrsla um könnun á vistun barna á Kópavogshæli.

[14:25]
Horfa

Jóna Sólveig Elínardóttir (V):

Frú forseti. Mig langar að byrja á að þakka hv. þm. Steinunni Þóru Árnadóttur fyrir að efna til þessarar umræðu hér í dag. Kveikjan að umræðunni er sannarlega áminning um nauðsyn þess að við séum sífellt á tánum þegar kemur að því að gæta að og tryggja mannréttindi fatlaðra. Þetta er nefnilega ekki bara spurning um tæknileg hugtök, um lög, reglur, skyldur, kvaðir, brot og sektir. Þetta snýst um einstaklinga og fjölskyldur, líf einstaklinga og fjölskyldna og lífsgæði og hamingju. Í svona litlu samfélagi eins og okkar getur þetta allt orðið dálítið flókið, viðkvæmt og erfitt. Í svona litlu samfélagi getur áhætta af þáttum eins og meðvirkni og þöggun verið meiri en í stærri samfélögum. Þetta er eitthvað sem við sem hér störfum þurfum að vera meðvituð um. Við þurfum að spyrja okkur hvort ferlar séu nægilega góðir. Eru þeir nægilega skýrir? Er eftirlit nógu gott? Er augljóst hvar ábyrgðin liggur og hver viðurlögin eru þegar brot á réttindum fatlaðra eru annars vegar?

Mig langar í fyrri ræðu minni að enduróma áhyggjur sem hafa heyrst hér í dag um eftirlitsmál og beina þeirri spurningu til hæstv. ráðherra hvort í þeim drögum að frumvörpum sem hæstv. ráðherra erfði frá fyrirrennara sínum, þ.e. drög að frumvarpi um þjónustu við fatlað fólk og drög að frumvarpi um breytingar á lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga, sé gert ráð fyrir virkara eftirliti með félagsþjónustu og málefnum fatlaðra. Hafa yfirvöld í huga að fara í frumkvæðisdrifnara eftirlit og endurspeglast það í þeim frumvörpum sem ég nefndi? Það væri gott ef ráðherrann gæti kafað aðeins dýpra ofan í það.