146. löggjafarþing — 38. fundur,  2. mars 2017.

skýrsla um könnun á vistun barna á Kópavogshæli.

[14:27]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Það var svo erfitt að hlusta á fólk ræða þessa skýrslu að maður átti bágt með að hlusta á það. En mig langar að grípa ofan í frétt af RÚV, með leyfi forseta:

„Ofbeldi gegn vistmönnum á sambýlinu á Blönduósi hefur ítrekað komið upp undanfarin ár. Réttargæslumaður fatlaðs fólks á Norðurlandi segir málin afar erfið, þar sem vistmenn geta ekki tjáð sig um hvað gerðist. Einn starfsmaður tók vistmann hálstaki og barði hann í hnakkann fyrir að fá sér súkkulaðirúsínur í leyfisleysi. Annar var kærður fyrir að sparka í vistmann á meðan þeir voru í göngutúr.“

„Sérfræðiteymi velferðarráðuneytisins úrskurðaði í fyrra að ólögmætri nauðung og þvingun sé beitt á sambýlinu, er fram kom í fréttum RÚV í gær, og segja fyrrverandi starfsmenn og lögráðamaður vistmanns aðstæður þar óviðunandi. Sveitarfélagið Skagafjörður, sem ber ábyrgð á rekstrinum, viðurkennir að verulegar brotalamir séu í starfseminni.“

„Réttindagæslumaður fatlaðs fólks á Norðurlandi ræddi málið fyrst á fundi réttindagæslumanna árið 2011 vegna gruns um að ekki væri allt með felldu.“

Nú langar mig að spyrja hæstv. ráðherra hvort hann muni ekki leggja sig fram um að tryggja að þegar ábendingar koma — því að þessi frétt er frá því í febrúar á þessu ári — um ofbeldi gagnvart fötluðu fólki eða öðru fólki sem á að vera undir verndarhendi hins opinbera, hvort heldur er í gegnum sveitarfélög … Þessi málaflokkur heyrir alltaf undir velferðarráðuneytið. Hvað ætlar ráðherrann að gera til að fyrirbyggja að svona haldi áfram? Svona lagað gerist í dag. Svona hörmulegir hlutir gerast enn í dag og það er okkar að passa upp á (Forseti hringir.) bræður okkar og systur sem þurfa á því að halda að við tryggjum öryggi þeirra á alla vegu.