146. löggjafarþing — 38. fundur,  2. mars 2017.

skýrsla um könnun á vistun barna á Kópavogshæli.

[14:32]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Steinunni Þóru Arnardóttur fyrir að hefja þessa mikilvægu umræðu og jafnframt þakka hæstv. ráðherra fyrir þau greinargóðu svör sem hann veitti áðan. Það er greinilegt að heilmikil vinna er farin af stað innan velferðarráðuneytisins til að vinna betur að þessum málum. Vil ég þakka hæstv. ráðherra fyrir það.

En betur má ef duga skal. Það er mjög mikilvægt að við lærum öll, samfélagið, af vinnubrögðum fortíðar og gerum betur í framtíðinni. Ég vil taka undir orð hv. þm. Loga Einarssonar um að við megum samt ekki rýra það starfsfólk sem vann vinnu sína vel þegar við ræðum þetta þótt við horfum alvarlegum augum á það sem miður fór.

Ég vil í þessari stuttu ræðu taka undir orð hv. þm. Eyglóar Harðardóttur um að komið verði á fót varanlegu fyrirkomulagi fyrir þá sem telja sig hafa orðið fyrir og hafa orðið fyrir vanrækslu, misbeitingu eða öðru ofbeldi, að við komum á varanlegu fyrirkomulagi þar sem einstaklingar geta lagt fram gögn og fengið þau metin. Eins og kom fram í ræðu hv. þm. Eyglóar Harðardóttur er það stundum svo þegar ákveðinn tímarammi er gefinn til að bregðast við og leggja fram gögn að fólk sem hefur orðið fyrir áfalli er ekki í stakk búið til þess að vinna úr málum sínum á þeim stað og þeirri stundu og innan þess tímaramma sem gefinn er. Ég tel að mjög gott væri ef hægt væri að skoða það og jafnframt það sem hæstv. ráðherra talar um, að tvöfalda fjölda réttargæslumanna, auka eftirlit, þannig að við getum komið í veg fyrir að alvarlegir hlutir sem þessir eigi sér stað aftur.