146. löggjafarþing — 38. fundur,  2. mars 2017.

skýrsla um könnun á vistun barna á Kópavogshæli.

[14:34]
Horfa

Nichole Leigh Mosty (Bf):

Virðulegi forseti. Ég tek upp þráðinn þar sem ég kláraði seinast og held áfram með barnasáttmálann. Mig langar skýra af hverju ég tel mikilvægt að hafa hann til hliðsjónar við skoðun á barnaverndarlögum og barnalögum. Það er einfaldlega til þess að tryggja að í íslenskum lögum sé borin virðing fyrir börnum til samræmis við barnasáttmálann.

Með leyfi forseta vil ég vitna aftur í barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna:

2. gr. Jafnræði – bann við mismunun.

Öll börn skulu njóta réttinda barnasáttmálans án tillits til kynþáttar, litarháttar, kynferðis, tungu, trúar, stjórnmálaskoðana, ætternis, fötlunar, félagslegrar stöðu eða annarra aðstæðna þeirra eða stöðu eða athafna foreldra þeirra.

3. gr. Það sem barninu er fyrir bestu.

Allar ákvarðanir eða ráðstafanir yfirvalda er varða börn skulu byggðar á því sem er börnum fyrir bestu. Setja á lög og reglur sem tryggja börnum þá vernd og umönnun sem velferð þeirra krefst. Aðildarríki eiga að sjá til þess að stofnanir og þjónusta sem annast börn uppfylli reglur sem stjórnvöld hafa sett, sérstaklega um öryggi, heilsuvernd, fjölda og hæfni starfsmanna og yfirumsjón.

6. gr. Réttur til lífs og þroska.

Sérhvert barn á meðfæddan rétt til lífs og skulu aðildarríkin tryggja að það megi lifa og þroskast.

12. gr. Réttur til að láta skoðanir sínar í ljós og til að hafa áhrif.

Börn eiga rétt á að láta í ljós skoðanir sínar í öllum málum er varða þau og að tekið sé réttmætt tillit til skoðana þeirra í samræmi við aldur þeirra og þroska. Börnum skal veitt tækifæri til að tjá sig um eigin málefni við málsmeðferð fyrir dómi eða stjórnvaldi.

Það er mín skoðun að hefðu þau réttindi sem ég las hér upp verið virt alls staðar í samfélaginu og eftirlitið með því verið virkt myndum við líklega ekki vera hér í dag að ræða um Kópavogshæli. Ég hef talað sérstaklega um börn og ég ákvað að taka þann þátt þar sem skýrslan er svo umfangsmikil. Ég hvet bæði hæstv. velferðarráðherra og hv. alþingismenn til að við lögfestum samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Þótt hann hafi verið fullgiltur sýnir þessi skýrsla hve markviss lög þurfa að vera til að veita þeim viðkvæma þjóðfélagshópi einnig sérstaka vernd.