146. löggjafarþing — 38. fundur,  2. mars 2017.

skýrsla um könnun á vistun barna á Kópavogshæli.

[14:41]
Horfa

félags- og jafnréttismálaráðherra (Þorsteinn Víglundsson) (V):

Frú forseti. Mig langar enn og aftur að þakka hv. þingmanni fyrir þessa góðu umræðu og raunar þingmönnum öllum fyrir þá umræðu sem hér hefur farið fram. Ég held að lykillinn sé þessi: Við eigum að fagna fjölbreytileika af öllum toga. Það er grundvallaratriði þegar kemur að málefnum fatlaðs fólks. Þetta er hluti af hinum mannlega fjölbreytileika. Við þurfum að gæta þess að sá hópur, eins og allir aðrir, búi við jafnrétti til fulls og innihaldsríks lífs. Það snýr m.a. að heimili fólks, að geta valið sér búsetu, að geta fengið þjónustu heim, að litið sé á búsetu fatlaðra hvar sem þeir búa sem heimili þeirra en ekki sem stofnanir, sambýli eða eitthvað þess háttar og að þeir njóti þeirrar virðingar sem þeim ber á heimili sínu og þeir sem veita þjónustu nálgist hana með þeim huga.

Hér hefur verið tæpt á ýmsu. Hv. þm. Birgitta Jónsdóttir nefndi það mál sem kom upp með vistheimilið á Blönduósi. Þar átti ég fund strax í kjölfar þeirrar fréttar með sveitarstjóra Skagafjarðar sem fullvissaði mig um að þarna væri unnið kerfisbundið af metnaði að úrbótum. Ég treysti orðum hennar og veit að þar hefur margt færst til betri vegar þótt enn séu brotalamir þar í starfseminni sem unnið er að því að útrýma.

Það er gríðarlega mikilvægt að við eflum eftirlitsþáttinn. Ráðuneytið er að skoða ýmsar leiðir til þess, til að mynda í frumvörpum sem liggja fyrir þinginu núna um stofnun sérstakrar eftirlitsstofnunar, en þarna þarf ráðuneytið og sá ráðherra sem hér stendur að taka ábyrgð sína alvarlega og sinna þessu af kostgæfni.

Ég tek undir og held að fyllilega tímabært sé að skoða barnaverndarlög á Íslandi með hliðsjón af því að við höfum lögfest barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Löggjöfin er talsvert eldri. Þó svo að barnasáttmálinn (Forseti hringir.) sé vissulega orðinn hluti af íslenskri löggjöf er full ástæða til þess að skoða barnaverndarlögin með hliðsjón af þessu.