146. löggjafarþing — 38. fundur,  2. mars 2017.

matvælaframleiðsla og loftslagsmál.

[15:04]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Frú forseti. Á Parísarráðstefnunni um aðgerðir í loftslagsmálum árið 2015 vakti það athygli að ekkert var minnst á framleiðslu dýraafurða sem Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna telur þó að valdi allt að 20% af losun allra gróðurhúsalofttegunda. Sem dæmi er talið að á heimsvísu losi kjöt- og mjólkurframleiðsla meira en allur samgönguflotinn til samans.

Benjamín Sigurgeirsson, doktor í líftækni, ritar fróðlega grein í Stundina fyrir nokkrum mánuðum og vitnar til vísindalegra rannsókna í skrifum sínum sem leiði í ljós að um 60% dauðsfalla mannkyns megi rekja til ósmitbærra sjúkdóma en helstu áhættuþættir þeirra eru taldir vera óhollt mataræði, reykingar, ofnotkun á áfengi og hreyfingarleysi. Slíkir sjúkdómar séu oft beintengdir neyslu matvara úr dýraríkinu. Þannig mætti með breyttu mataræði einu saman koma í veg fyrir ótímabær dauðsföll og styrkja heilsu fólks. Umhverfisáhrif dýraframleiðslu séu að sjálfsögðu ekki eingöngu fjárhagsleg heldur sé dýraframleiðsla verulega mengandi. Fyrir utan að vera mjög frek á bæði vatn og landrými beri hún ábyrgð á mikilli losun gróðurhúsalofttegunda.

En er hægt að gera eitthvað til að færa þessi mál til betri vegar? Já, segir Benedikt. Það getur hver og einn ákveðið fyrir sig að neita eða draga úr þátttöku sinni í því sem fólgið er í framleiðslu dýra til manneldis. Styðja mætti bændur sem hugsanlega vildu skipta úr framleiðslu dýra yfir í annan búskap. Skoða mætti og efla þá möguleika sem felast í ylræktun og annars konar nýsköpun í fæðurækt innan plönturíkisins.

Virðulegur forseti. Það ætti í raun að vera skylda stjórnvalda á okkar tímum að fræða fólk um áhrif kjöt- og mjólkurneyslu á umhverfið og beita aðgerðum til að hvetja til aukinnar neyslu á mat sem hefur minni umhverfisáhrif. Það er ekki eftir neinu að bíða, tíminn vinnur ekki með okkur.