146. löggjafarþing — 38. fundur,  2. mars 2017.

matvælaframleiðsla og loftslagsmál.

[15:06]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég vil eins og aðrir þakka fyrir þá umræðu sem hér er hafin. Það er mikilvægt þegar við ræðum landbúnaðar- og loftslagsmál að muna það að bændur Íslands hafa einmitt lengi vel verið í fararbroddi fyrir því að efla umhverfisvitund og umhverfisvernd á landinu. Þeir hafa verið í fararbroddi varðandi ræktun lands, uppgræðslu heiða og heimalanda sinna. Þetta er það sem íslenskir bændur hafa gert árum saman. Þeir hafa líka alltaf verið tilbúnir til þess að taka upp nýja þekkingu og nýja tækni í sínum búskap og búskaparháttum.

Fyrir nokkru, eða í apríl 2016, var gert samkomulag við Bændasamtökin um samkomulag um loftslagsvænni landbúnað — þetta er svipað og segja Kasakstan í þessum stól — og ég vona svo sannarlega að nýr ráðherra fylgi því fast eftir því samkomulagi sem þar var gert. Einnig voru í júní 2016 gerðir tveir samningar af þáverandi umhverfisráðherra við Landbúnaðarháskóla Íslands á Hvanneyri um rannsóknir á losun gróðurhúsalofttegunda og bindingu koltvíoxíðs í jarðvegi og útreikningum á kolefnislosun í landbúnaði.

Að þessu sögðu er á sama tíma mjög sérkennilegt að heyra það að svo virðist sem ríkisstjórn Íslands ætli sér að stuðla að auknum innflutningi á matvöru til landsins, í raun þvert á þá þörf sem fyrir er í stað þess að einbeita sér að því að efla matvælaframleiðslu á Íslandi og stilla hana af. Það getur verið að við þurfum að draga úr framleiðslu á einhverjum stöðum. Það getur verið að við getum aukið hana annars staðar og við getum aukið útflutning á einhverju öðru sem við erum að gera í dag o.s.frv., en það er algjörlega fráleitt að tala um loftslagsmál og landbúnað á sama tíma og stórauka innflutning á vörum sem jafnvel eru framleiddar undir skilyrðum eða með þeim hætti sem við viljum helst ekki kannast við. Fyrir utan þá hættu sem fylgir því að flytja inn hráar matvörur til Íslands eins og hefur verið bent á núna á undanförnum dögum með mjög afgerandi hætti.

Bændur eru tilbúnir til þess að taka á í umhverfismálum. Þeir hafa sýnt það og þeir hafa leitt þá vinnu um áraraðir. Við getum horft til eldsneytisnotkunar í landbúnaði í dag. Við getum líka horft til þess að nýta (Forseti hringir.) innlendan áburð, t.d. þörungamjöl og annað, til þess að gera landbúnað okkar enn þá loftslagsvænni og umhverfisvænni en er í dag.