146. löggjafarþing — 38. fundur,  2. mars 2017.

vextir og verðtrygging o.fl.

216. mál
[15:41]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Benedikt Jóhannesson) (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Stutta svarið við spurningu hv. þingmanns er nei, mér mundi ekki lítast vel á það. Ég tel að það gæti leitt til þess að það þrengdi mjög að lánamöguleikum einstaklinga. Nú geta einstaklingar valið um að taka verðtryggð og óverðtryggð lán t.d. hjá lífeyrissjóðum. Ég hygg að af nýjum lánum sem einstaklingar velja af fúsum og frjálsum vilja séu á milli 80% og 90% verðtryggð. Ég held að með slíku banni værum við að þrengja að valfrelsi neytenda. Það teldi ég alls ekki heppilegt.

Ég vil hins vegar segja að ég deili áhyggjum hv. þingmanns af því að lánum í erlendri mynt og lánum sem eru tengd með gengisáhættu getur auðvitað fylgt áhætta, það er hárrétt, eins og margir lentu í eftir hrunið og sitja nú eftir með sárt ennið. Þetta kallar á mikla ábyrgð lánveitenda og lántakenda. Hér erum við í raun bara að leyfa þetta lánsform en það er ekki verið að hvetja til þess að fólk taki lán af þessu tagi.