146. löggjafarþing — 38. fundur,  2. mars 2017.

vextir og verðtrygging o.fl.

216. mál
[15:47]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin eins langt og þau náðu.

Nú er þetta ekki í fyrsta sinn sem slíkt frumvarp kemur fram, eða mjög líkt frumvarp í það minnsta. Í umsögnum hefur Seðlabankinn varað eindregið við afleiðingu þess að opna á veitingu gengistryggðra lána til neytenda sem ekki hafa gengisvarnir. Er ekki vandinn sem við erum að glíma við okkar litla mynt? Nú sagði hæstv. ráðherra að við þyrftum að gera þetta út af EES-reglum, ekki satt? Og það væri ástæðan fyrir því að við værum að fara út í þetta mál sem Seðlabankinn hefur þó varað eindregið við. Er enginn möguleiki fyrir Ísland með sína litlu sjálfstæðu mynt og viðkvæmu að fá undanþágu frá þeim reglum sem hæstv. ráðherra segir að kalli á þetta frumvarp? Er það ekki möguleiki? Er okkur nauðugur einn kostur að gera þetta? Eigum við einhverja aðra möguleika í stöðunni? Þó að hæstv. ráðherra hafi talað upp ýmsar leiðir til þess að reyna að lækka vexti hér á landi, þá er aðalástæðan fyrir háum vöxtum á Íslandi gjaldmiðillinn okkar. Er ekki hægt að gera eitthvað annað, fá undanþágu, eða verðum við, alveg sama hversu mikið er varað við afleiðingum, samt að samþykkja frumvarpið?