146. löggjafarþing — 38. fundur,  2. mars 2017.

vextir og verðtrygging o.fl.

216. mál
[15:49]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Benedikt Jóhannesson) (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil taka undir áhyggjur hv. þingmanns af gjaldmiðli Íslendinga. Ég tel að það sé eitt okkar þjóðarmein að vera með fallvalta krónu sem er geysisterk einn daginn og svo sterk að hún setur útflutningsatvinnuvegina á hnén, setur samkeppnisiðnað innan lands í kreppu, setur ferðaþjónustuna í afar erfiða stöðu. Það er vissulega mikið áhyggjuefni. Við sjáum það að á einum mánuði hefur gengi krónunnar styrkst um u.þ.b. 10%. Það er ekki stöðugur eða heppilegur gjaldmiðill sem breytist með þeim hætti. Ég hygg því að við hv. þingmaður séum algjörlega sammála um að gjaldmiðillinn sjálfur er mikill skaðvaldur.

Ég hygg að hv. þingmaður viti svarið við spurningu sinni, að gerð hefur verið athugasemd við það að Ísland hafi ekki innleitt þessar breytingar á sinni löggjöf og að næsta skref í því, verði Ísland ekki við því að innleiða þessa breytingu á EES-samningnum, væri það að við myndum vera dregin fyrir dómstól í því. Hins vegar held ég að ekki megi gera of mikið úr hættu sem þessu fylgi. Hér erum við í raun og veru bara að tala um ákveðið lánsform sem er ekki ólíkt lánsformi sem nú þegar er leyft, þ.e. gjaldeyrislán.