146. löggjafarþing — 38. fundur,  2. mars 2017.

vextir og verðtrygging o.fl.

216. mál
[15:51]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V):

Virðulegi forseti Það liggur fyrir að Eftirlitsstofnun EFTA telur að bann íslenskra laga við gengistryggingu samrýmist ekki meginreglu EES-samningsins um frjálst fjármagnsflæði og hefur sett fram í rökstuddu áliti frá því í maí 2013. Sömuleiðis liggur fyrir að Eftirlitsstofnun EFTA hefur gert íslenskum stjórnvöldum ljóst að verði banninu ekki aflétt verði Íslandi stefnt fyrir EFTA-dómstólinn vegna málsins. Loks liggur fyrir að íslensk stjórnvöld hafa fallist á að endurskoða bannið en ekki er talið ráðlegt að gera það án takmarkana sem eru byggðar á sjónarmiðum um neytendavernd og fjármálastöðugleika.

Það er í fyllsta máta eðlilegt að hér vilji menn vera á varðbergi í ljósi sögunnar og að þeim hrjósi hugur við því að sams konar ástand skapist og var hér fyrir nokkrum árum, að menn fari sér að voða eins og raunin varð í aðdraganda og eftirleik hrunsins árið 2008. Ég tel að ekki sé stór hætta á því vegna þess að ekki verður betur séð en að í frumvarpinu sé að finna viðbrögð við þessum eðlilegu áhyggjum. Má þar t.d. benda á 3. gr. frumvarpsins en þar segir, með leyfi forseta:

„Seðlabanka Íslands er heimilt, í þágu fjármálastöðugleika og að fengnu áliti fjármálastöðugleikaráðs, að setja lánastofnunum reglur um útlán tengd erlendum gjaldmiðlum til aðila sem ekki eru varðir fyrir gjaldeyrisáhættu.“

Einnig má benda á ákvæðin sem fjalla um breytingar á lögum um neytendalán, einkum 8. og 10. gr. frumvarpsins. Þar er m.a. fjallað um greiðslumat og skyldur lánveitenda til að veita ítarlegar upplýsingar um þá áhættu sem felst í slíkum lánum. Sömuleiðis er fjallað um heimildir til þess að breyta eftirstöðvum láns. Um þessa þætti segir nánar í greinargerð, með leyfi forseta:

„Í 8. gr. frumvarpsins eru strangari ákvæði um greiðslumat lána sem tengjast erlendum gjaldmiðlum en gilda um erlend lán í dag og því má leiða að því líkum að verði frumvarpið að lögum muni færri aðilum standa til boða að taka erlend lán en að óbreyttu. Vegna skilyrða 8. gr. og þeirra takmarkana sem gilda um afleiðusamninga fyrir neytendur munu lán tengd erlendum gjaldmiðlum aðallega standa þeim til boða sem eru með tekjur í erlendum gjaldmiðlum og þeim sem geta staðið af sér verulegar breytingar á greiðslubyrði vegna gengis- og vaxtabreytinga. Sú geta ræðst að miklu leyti af hlutfalli milli tekna viðkomandi í heimamynt og upphæðar höfuðstóls lánsins, ásamt endurgreiðslutíma. Framboð til hins almenna neytanda á Íslandi mun því líklega verða minna verði frumvarpið að lögum.

Í 10. gr. frumvarpsins er kveðið á um rétt neytanda til að breyta eftirstöðvum láns sem er tengt erlendum gjaldmiðli í lán sem tengist ekki erlendum gjaldmiðlum (heimamynt).“ — Í flestum tilvikum þá íslenskri krónu eins og fram kom hér í ræðu hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra. — „Í þessum rétti felst verðmæti fyrir neytanda þar sem hann getur tekið mið af breyttum aðstæðum, hvort sem er sínum eigin eða efnahagslegum, til þess að umbreyta láni. Í réttinum felst jafnframt aukin áhætta fyrir lánveitanda sem líklegt er að hann muni vilja fá greitt fyrir og taka tillit til við útreikning á kostnaði lánsins. Þessi réttur mun því að öllu öðru óbreyttu gera lán í erlendum gjaldmiðli dýrari en ella.“

Virðulegi forseti. Í ljósi þess sem ég hef rakið hér að framan verður ekki betur séð en að gripið sé til ráðstafana og takmarkana sem eru fullnægjandi. Þær eiga að duga til þess að koma í veg fyrir að heimildir til þess að taka lán í erlendri mynt verði til þess að þau lán verði almenn eða tekin af þeim sem ekki geta risið undir þeirri áhættu sem í þeim felst.

Virðulegi forseti. Að síðustu vil ég nota tækifærið til þess að benda á mikilvægi þess að við getum búið við fyrirkomulag í gjaldmiðilsmálum sem kemur í veg fyrir þær gengissveiflur sem valda búsifjum og búhnykkjum á víxl. Þá losnum við nefnilega að mestu við alls kyns ráðstafanir sem almenningur, fyrirtæki og ríkið þurfa að grípa til í þeim tilgangi að verja sig fyrir eiginleikum eigin gjaldmiðils.