146. löggjafarþing — 38. fundur,  2. mars 2017.

vextir og verðtrygging o.fl.

216. mál
[15:57]
Horfa

Lilja Alfreðsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra fyrir framsögu sína en verð auðvitað að benda á að enn á ný er komið frumvarp sem miðar að því að lögleiða gengistryggð lán til neytenda sem hafa ekki varnir gegn þeirri gengisáhættu sem fylgir slíkum lánum. Einnig er með frumvarpinu opnað fyrir gengistryggð lán með veði í íbúðarhúsnæði neytenda sem óvarðir eru fyrir gengisáhættu. Þetta er ekki fyrsta tilraunin til að koma með þessa áhættu inn í hagkerfið en fyrri tilraunir hafa ekki gengið eftir.

Það sem meira er þá geta aðeins þeir neytendur tekið gengistryggð lán sem hafa nægilegar tekjur til að ráða við verulegar gengis- og vaxtabreytingar sem fylgja slíkum lánum. Niðurstaðan af þessu er sú að það er aðeins efnameira fólk sem getur tekið þessi lán. Ákveðið greiðslumat fer fram. Í frumvarpinu kemur fram, með leyfi forseta:

„Lánveitandi skal aðeins veita lán tengd erlendum gjaldmiðlum til neytanda sem:

a. hefur nægilegar tekjur í þeim gjaldmiðli sem lánið tengist til að standast greiðslumat, eða

b. hefur staðist greiðslumat þar sem gert er ráð fyrir verulegum gengisbreytingum og verulegum hækkunum á vöxtum, eða

c. hefur staðist greiðslumat og leggur fram viðeigandi fjárhagslegar tryggingar sem draga verulega úr gjaldeyrisáhættu hans vegna lánsins á lánstímanum.“

Ég ítreka að aðgengi að þessum lánum er aðeins á færi þeirra sem eru tekjuháir. Er það virkilega forgangsmál hjá ríkisstjórninni að veita aðgengi að gengislánum til þessara aðila? Það er heilmikil umræða um þetta í þjóðfélaginu. Mig langar að vitna í leiðara Þorbjörns Þórðarsonar í Fréttablaðinu í dag, með leyfi forseta. Þar segir hann:

„Varnagli er í nýja frumvarpinu sem felur í sér að einungis verður hægt að veita erlend lán til óvarinna, þ.e. þeirra sem hafa ekki tekjur í öðru en krónum, að undangengnu greiðslu- og lánshæfismati. Í frumvarpstextanum er svofellt ákvæði: „Lánveitandi skal aðeins veita lán ef hann telur líklegt að neytandi geti staðið í skilum með lánið að teknu tilliti til niðurstöðu lánshæfis- og greiðslumats.“ Þessi texti þýðir efnislega að það verður eingöngu á færi efnafólks og tekjuhárra að taka þessi lán. Bankar munu ekki veita þessi lán ef það verður talið fyrirsjáanlegt að lántakinn geti ekki mætt kostnaðinum sem fylgir gengishruni ef illa fer að leikslokum. “

Þá spyr Þorbjörn Þórðarson: „Hver er sanngirnin í því?“

Ég er sammála honum. Áfram segir hann:

„Og þýðir þetta ekki að verið sé að lögbinda mismunun og opna á stöðutökur efnaðra og tekjuhárra gegn íslensku krónunni? Svari nú hver fyrir sig.“

Ég fyrir mitt leyti svara: Ég er sammála honum. En ég held að þetta sé bara staðan á Íslandi í dag. Það er auðvitað með hálfgerðum ólíkindum að menn mæti hér í pontu og sjái ekkert að þessu. Ekkert.

Annað sem mig langar að nefna í þessu samhengi: Hver er reynslan frá fjármálaáfallinu 2008?

Virðulegi forseti. Það eru nokkur atriðið í frumvarpinu sem mig langar að nefna, með leyfi forseta:

„Í lok september 2008 námu lán til einstaklinga tengd erlendum gjaldmiðlum um 320 milljörðum kr. eða um 17% af heildarskuldum einstaklinga. Þá tóku sveitarfélög í auknum mæli lán tengd erlendum gjaldmiðlum á árunum fyrir hrun og sömuleiðis fyrirtæki sem höfðu hvorki tekjur né áttu eignir í erlendum gjaldmiðlum. Skyndileg lækkun íslensku krónunnar á árinu 2008 bitnaði harkalega á efnahag lántaka sem ekki voru varðir fyrir gengissveiflum.“

Að sjálfsögðu eru ákveðnar breytingar í frumvarpinu sem taka mið af þessum þáttum en þetta gerðist fyrir ekkert svo löngu síðan við ekkert ósvipaðar aðstæður og eru uppi í dag. Það er mikill vaxtamunur við útlönd. Hér er mikill gangur í hagkerfinu, 5% hagvöxtur á síðasta ári, og krónan hefur verið að styrkjast verulega eins og hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra nefndi, um 10% á frekar skömmum tíma. Það má segja að það séu kjöraðstæður fyrir aðila að fara í þessi lán eins og staðan er í dag. Eins og kemur fram í frumvarpinu: „Áhætta vegna gengisbreytinga lána í erlendri mynt er því umtalsverð.“

Svo er það það sem fjármála- og efnahagsráðherra nefndi, það er mikill gangur í hagkerfinu. Hlutdeild erlendra lána í nýjum útlánum bankakerfisins, að frádregnum uppgreiðslum, hefur aukist úr tæpum 5,6% árið 2013 í 21,7% árið 2016. Þetta sýnir auðvitað þá þróun sem ég var að nefna. Vegna þessa mikla vaxtamunar og að ákveðnir aðilar geta tekið lán erlendis, jafnvel á neikvæðum vöxtum, þá er alveg gríðarlegur hvati til að fara þessa leið akkúrat þessa dagana. Ég spyr: Væri ekki skynsamlegra að bíða með þetta eða skoða betur og láta kannski á þetta reyna frekar fyrir dómstólum áður en við förum þessa leið? Ég tel að svo sé.

Er Ísland sér á báti í þessu samhengi? Er Ísland eina ríkið sem lendir í þessari áhættu? Nei, það er ekki þannig. Austurríkismenn með sína evru ákváðu á sínum tíma að taka lán í svissneskum frönkum því að vaxtamunurinn var það mikill, mjög freistandi vextir. Þegar gengi svissneska frankans hækkaði skyndilega árið 2015, um 20%, var mjög stór hópur lánveitenda í miklum erfiðleikum og þurfti aðstoð. Það sama má segja um þúsundir Pólverja sem fóru þessa leið. Þannig að þetta er síendurtekin saga. Sérstaklega þegar er svona mikill munur á raunhagkerfi þessa ríkis hér og til að mynda evrusvæðisins þessa dagana.

Það sem er að gerast í þessum ríkjum og fleirum er að það er verið að sporna við veitingu gengistryggðra lána til óvarinna lántakenda. Það er verið að setja stífari skorður við veðhlutföllum gengistryggðra lána og stífari kröfur um eiginfjárbindingu lánastofnananna til þess að veita þau.

Það er í raun og veru fernt sem ræður því að ég er mótfallin þessu frumvarpi. Það eru í fyrsta lagi rök er lúta að fjármálastöðugleika, þ.e. að lántakandi í erlendri mynt, lántakandi sem hefur ekki vörn, á ekki að mínu mati að fá aðgengi að þessum lánum. Þetta mun auka fjármálaóstöðugleika. Staðan verður að mínu mati að vera varin. Það eru ákvæði í frumvarpinu sem lúta að því að ef lánin aukast umtalsvert getur Seðlabankinn eða fjármálastöðugleikaráð gripið inn í og spornað gegn þessari lántöku, ef ég skil þetta rétt. En ég held að það sé líka ákveðin áhætta fólgin í þessu því að um leið og þetta verður leyft, hvað gera þá tekjuhærri einstaklingar og þeir sem geta staðist þetta greiðslumat? Þeir eru örugglega nú þegar byrjaðir að fara í greiðslumat í bankanum sínum. Þeir fara auðvitað í bankann og taka þessi lán núna meðan þeir geta. Ég held að það sé verið að búa til ákveðið vandamál með því að setja þetta ákvæði inn.

Í öðru lagi eru það jafnréttis- og sanngirnisrök. Það er ljóst að það eru aðeins efnameiri heimili landsins sem geta tekið þessi lán. Er þetta kannski svolítið í takt við ríkisstjórnina? Ég bara spyr. Mér finnst leitt að segja þetta vegna þess að ég held að flestir vilji landi og þjóð allt hið besta en það læðist að manni óþægilegur grunur um að viðkomandi aðilum finnist þetta bara allt í lagi og finnist allt í lagi að mismuna heimilum landsins með þessum hætti.

Þá kem ég að þriðju rökunum. Þau lúta að peningastefnunni. Það er ljóst eins og ég segi að það eru efnameiri heimili landsins sem hafa aðgengi að þessu. Þau munu þá búa við allt önnur vaxtakjör en önnur heimili í landinu. Allt önnur. Það er hreinlega verið að mismuna heimilunum.

Í fjórða lagi eins og ég nefndi áðan lít ég líka til annarra ríkja sem eru að þrengja að slíkri lántöku vegna þess að reynslan er ekki góð. Eins og hér var nefnt lúta meginrökin fyrir því að fjármála- og efnahagsráðherra leggur fram þetta frumvarp að því að bann íslenskra laga við gengistryggingu samræmist ekki meginreglu EES-samningsins um frjálst flæði fjármagns. Auðvitað skiljum við þetta sem þekkjum EES-samninginn vel. En mér finnst þetta bara vera það stórt atriði og miklar breytingar, sérstaklega í ljósi þeirra raka sem ég fór yfir, að við eigum að láta á þetta reyna fyrir EFTA-dómstólnum. Við eigum að taka þetta alla leið. Við höfum bara ágætisreynslu af því. Okkar hagkerfi er talsvert frábrugðið öðrum hagkerfum sökum þess að hér búa í kringum 320 þúsund manns og landsframleiðslan er mun minni hlutfallslega, í samanburði við önnur ríki. Þess vegna eru aðrar aðstæður hér en í mörgum öðrum ríkjum. Við eigum að taka mið af því áður en við samþykkjum þetta frumvarp. Mér finnst að við eigum að láta á þetta reyna fyrir EFTA-dómstólnum.