146. löggjafarþing — 38. fundur,  2. mars 2017.

vextir og verðtrygging o.fl.

216. mál
[16:09]
Horfa

Lilja Alfreðsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessar athugasemdir. Ég held að það sé einhver misskilningur hjá honum að EES-skuldbindingarnar séu eitthvað sem ég taki ekki nógu alvarlega. Það er alls ekki svo. Ég held bara að það sem hefur stundum gerst þegar við erum að innleiða ákveðnar reglur og ákvæði er varða EES-samninginn sé að við hugum ekki nægilega vel að því hvaða aðstæður eru í okkar hagkerfi. Þær eru bara aðeins öðruvísi en hjá mörgum af hinum stærri ríkjum. Þess vegna vil ég láta á þetta reyna fyrir dómstólum.

Hvað varðar greiðslumat þá er alveg rétt að allir þurfa að fara í gegnum greiðslumat. Það er hins vegar talsverður munur á því þegar maður getur verið í allt öðru vaxtaumhverfi er varðar þessi erlendu lán og í raun og veru gert það í krafti þess að maður hafi hærri tekjur. Það er það sem ég er að benda á. Ég er að benda á jafnræðis- og sanngirnisrök í málinu.