146. löggjafarþing — 38. fundur,  2. mars 2017.

vextir og verðtrygging o.fl.

216. mál
[16:24]
Horfa

Lilja Alfreðsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa fyrirspurn. Venjulega þegar viðkomandi aðili er ekki fær um að bera þessa áhættu er það bankakerfið eða aðrir sem bera hana og þurfa að taka við henni. Það er auðvitað það sem við lentum í í fjármálahruninu. Ég nefndi til að mynda ólöglegu, gengistryggðu lánin. 150 milljarða afskriftir áttu sér stað. Mér finnst einhvern veginn eins og margir þingmenn séu þegar búnir að gleyma þessu og hvernig þetta var. Það er ekki bara Ísland sem hefur lent í vandræðum vegna gengistryggðra lána. Það er mörg, mörg önnur ríki. Það má ekki gleyma því.