146. löggjafarþing — 38. fundur,  2. mars 2017.

vextir og verðtrygging o.fl.

216. mál
[16:27]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Frú forseti. Ég þakka fyrir þær umræður sem hafa átt sér stað um þetta frumvarp sem er kannski á margan hátt ágætt, ekki síst í ljósi þess að það er svar við hótun Eftirlitsstofnunar EFTA. Þeirri stofnun er ágætt að taka mark á.

Nú eru fjögur ár liðin frá því að hótunin barst og því held ég því fram að það liggi ekki á að laga þetta vandamál, ekki svo mjög að við getum ekki tekið tillit til annarra vandamála fyrst og lagað þau, einkum þegar hætt er við að þau vandamál ágerist ef þetta frumvarp verður samþykkt. Ég tek undir þá viðvörun sem hv. þm. Elsa Lára Arnardóttir kom á framfæri frá fyrrverandi þingmanni Frosta Sigurjónssyni um að þetta skapar ójafnt aðgengi fólks að lánsfé á þeim góðu vaxtakjörum sem fást erlendis, eftir efnum. Það er ekki eðlilegt að aðeins efnafólk fái aðgang að ódýru lánsfé meðan flestir Íslendingar eru fastir í hávaxtaumhverfi.

Í þessu samhengi þurfum við að hafa í huga það sem segir í greinargerð frumvarpsins, með leyfi forseta:

„Í lok árs 2008 voru tæplega 50% heimila með lán tengd erlendum gjaldmiðlum með neikvæða eiginfjárstöðu í húsnæði en hlutfallið var rúmlega 20% hjá heimilum sem eingöngu voru með lán í íslenskum krónum sem ekki voru gengistryggð, þrátt fyrir að bankarnir hafi yfirleitt miðað við lægra veðhlutfall vegna erlendra lána. Áhætta vegna gengisbreytinga lána í erlendri mynt er því umtalsverð.“

Svo segir áfram, með leyfi forseta:

„Með hækkandi vaxtastigi undirliggjandi gjaldmiðla og hærra áhættuálagi eða aukinni áhættufælni á mörkuðum getur greiðslubyrði lána sem eru tengd erlendum gjaldmiðlum aukist til muna.“

Í svari við andsvari fyrr í umræðunni sagði hæstv. fjármálaráðherra að með þessu væri eingöngu verið að leyfa þetta lánsform, það væri ekki verið að reyna að hvetja fólk til að nýta þetta lánsform. Þetta er auðvitað rakið bull, forseti. Vaxtaumhverfið á Íslandi er slíkt í dag að hagkerfið sjálft hvetur alla sem geta komist hjá því að taka lán í krónum til að gera það og taka frekar lán í erlendri mynt. Húsnæðislán í Bretlandi er í augnablikinu hægt að fá á vöxtum niður í 2,2% en á Íslandi eru sambærileg lán á milli 6,5–7,5%. Þá er ég að vísa í óverðtryggð lán, að sjálfsögðu, því að það er það sem almennt gengur og gerist í heiminum. Vaxtamunurinn er orðinn svo mikill að það hreinlega borgar sig fyrir fólk að fara að braska. En við eigum ekki að standa í því að vera að undirbyggja braskhagkerfi, sérstaklega ekki ef það gagnast bara ríku fólki.

Herra forseti. Í hagfræðinni er þekkt fyrirbæri sem kallast þrílemman eða „the impossible trinity“ á ensku. Þetta er merkileg setning fyrir þær sakir að þetta er ein fárra setninga í hagfræði sem er búið að sanna bæði kennilega og með gögnum. Hún segir að ekki sé mögulegt að hafa samtímis frjálst flæði fjármagns, sjálfstæða peningastefnu og stöðugt gengi. Það má velja hvaða par af þessu sem er en það útilokar þá þriðja kostinn. Þrílemman neyðir okkur til að spyrja okkur hvað af þessu þrennu skiptir mestu máli og hvað minnstu máli. Sitt sýnist hverjum að sjálfsögðu. Lengst af frá lýðveldisstofnun hefur frjálst flæði fjármagns verið látið mæta afgangi, með tilheyrandi gjaldeyrishöftum, en síðan í aðdraganda hrunsins reyndu menn af veikum mætti að fá alla þrennuna. Auðvitað gekk það ekki til lengdar, kerfið hristi sig í sundur, þetta gerðist að sjálfsögðu með hjálp bankamanna og áhættufjárfesta. Lögmálið lýsir í rauninni bara hegðun sem mun koma upp.

Þetta frumvarp gengur út á að leiðrétta íslensk lög með tilliti til álits Eftirlitsstofnunar EFTA frá 2013. Hér er verið að bregðast við fjórum árum of seint en að auki er það gert á þann hátt sem býður hættum þrílemmunnar heim. Hér er hreinlega verið að taka afstöðu með sjálfstæðri peningastefnu og frjálsu flæði fjármagns sem þýðir að gengið mun halda áfram að þvælast bara út um allt. Við vitum svo sem að það hefur gert það að undanförnu, 10% hækkun núna á stuttum tíma og töluvert mikil hækkun undanfarin ár, og þessi mikla hækkun er farin að hafa mjög neikvæð áhrif á útflutningsgreinar á Íslandi sem sjá mismuninn milli rekstrarkostnaðar og söluhagnaðar fara minnkandi.

En hættan gæti orðið enn verri. Það eru aðrir þættir sem gætu leitt til þess að gengið færi enn meira á flakk, ekki síst þar sem erlendir fjárfestar sem komu með gjaldeyri til landsins í gegnum fjárfestingarleið Seðlabankans eru búnir að sjá allt að 60% aukningu á verðmæti peninganna sinna undanfarin ár. Á einhverjum tímapunkti mun traustið hverfa, eins og það gerir alltaf, sérstaklega þegar lagaumhverfið er þannig að ekki er hægt að treysta því. Þá munu þessir peningar flæða út. Í rauninni er búið að búa til ástand sem getur ekki staðið undir sér. Það má í raun rekja þessa miklu hækkun sem hefur orðið fyrst og fremst til peningamálastefnu Seðlabanka Íslands. Hún skapar ákveðna áhættu fyrir neytendur og dregur úr trúverðugleika hagkerfisins.

Í ljósi þessa alls vil ég vara við að frumvarpið verði samþykkt á þessum tímapunkti. Það er nauðsynlegt að við samþykkjum það að lokum. Eitt af því fáa sem ég var ósammála í máli hv. þm. Lilju Alfreðsdóttur var að ég er ekki alveg tilbúinn til að fara dómstólaleiðina í þessu máli. Ég held að við verðum að laga þetta og opna fyrir þetta að lokum. En ég held að við eigum fyrst að laga ýmislegt annað. Það þarf að ná fram ákveðnum stöðugleika, sérstaklega gengisstöðugleika, áður en þetta frumvarp verður skynsamlegt. Þótt það sé kannski bæði skynsamlegt og nauðsynlegt í ljósi alþjóðaskuldbindinga Íslands að samþykkja það að lokum þá eigum við ekki að drífa okkur. Við eigum alls ekki að drífa okkur, herra forseti.

Til að draga úr áhættu tengdri gengi krónunnar væri æskilegt að færa vaxtastigið í landinu almennt nær því sem gengur og gerist erlendis. Með því verður dregið að einhverju leyti úr erlendri spákaupmennsku og minnkaður fjármagnskostnaður innlendra aðila sem gætu að öðrum kosti leitað í áhættusöm gjaldeyrislán, hvort sem það er vegna beinnar, orðréttrar hvatningar frá hæstv. fjármálaráðherra eða ekki, vegna þess að hagkerfið hvetur til þess.

Samhliða þessu þurfum við ákvarðanatöku um framtíðarskipulag gjaldeyrismála á Íslandi. Fyrir kosningar talaði hæstv. fjármálaráðherra nær viðstöðulaust um myntráð, sem var að sögn þáverandi frambjóðanda Viðreisnar og margra núverandi hv. þingmanna lausnin á öllum vandamálum Íslands. Ég gagnrýndi þá tillögu á sínum tíma. Ég tel hana of kostnaðarsama og lít svo á að það séu aðrar leiðir sem eru kannski æskilegri á borð við t.d. lausbindingu við evru á skriðgengi eins og Króatía hefur gert og veldur því að langtímasveiflur eiga sér stað mjög rólega en skammtímasveiflur eru dempaðar. Það er ódýrara og einfaldara. En það skiptir í raun ekki máli hvaða leið er farin, það þarf að finna einhverja leið. Myntráðsfyrirkomulag er í sjálfu sér lítið annað en ákvörðun um að forgangsraða frjálsu flæði fjármagns og stöðugu gengi á kostnað sjálfstæðrar peningastefnu, en þó að vísu án þess að gefa sjálfstæðið í peningastefnunni alveg upp á bátinn. Það er enn þá til staðar þótt það sé ákveðin binding inni í regluverkinu. Það má fara einhverja aðra leið. Í rauninni er mér nokkuð sama hvaða leið er farin en það verður að fara einhverja leið, það er ekki hægt að halda áfram að fara enga leið.

Forseti. Við í stjórnarandstöðunni erum búin að bíða í rúman mánuð eftir því að ríkisstjórnin sýni einhver merki þess að hafa framtíðarsýn. Fyrr í dag birtist reyndar ágætisframtíðarsýn í loftslagsmálum í skýrslu hæstv. umhverfisráðherra. Það þarf að fylgja þeirri skýrslu eftir með aðgerðum núna. En það bólar enn þá ekkert á framtíðarsýn í efnahagsmálum og mikil er þörfin. Ég hef heyrt út undan mér að nú liggi uppi í fjármálaráðuneyti fjöldinn allur af frumvörpum sem á eftir að leggja fram. Ég skil ekki af hverju þau hafa ekki allavega komið til útbýtingar því það er engin ástæða fyrir því að þingið geti ekki farið að skoða þessi skjöl þrátt fyrir að þau séu kannski ekki komin á dagskrá. Ég veit ekki alveg hvað liggur fyrir uppi í ráðuneytinu en mér þætti mjög gaman að heyra hvað það er, hversu mörg frumvörp eru þar og hver staðan er á þeim. En ég myndi líka gjarnan vilja sjá tillögur Viðreisnar um myntráð koma fram eða einhvers konar tillögur sem myndu draga úr og minnka gengisáhættu. Það verður hreinlega að huga að þessu öllu áður en þetta frumvarp er samþykkt.

Ef við tækjum á þessu, löguðum þau vandamál sem snúa að háu vaxtastigi í landinu, snúa að því að það er 5% munur hið minnsta milli lána hér á landi og lána erlendis okkur í óhag, væri hægt að leggja fram þetta frumvarp án þess að vera með einhverjar furðulegar reglur um að eingöngu ríkt fólk mætti taka þessi lán því að þá væri stöðugleikinn innbyggður. Þá væru þetta eðlileg markaðsviðskipti sem ættu sér stað milli landa. Það væri eðlilegt ástand. En að leggja frumvarpið fram núna sem einhvers konar forgangsmál, því ekki hafa komið mörg mál frá hæstv. ríkisstjórn, verður til þessi ímynd að þetta sé það sem skipti raunverulega máli, að búa til umhverfi þar sem örfáir ríkir aðilar geta tekið hagstæð lán á meðan allir aðrir þurfa að súpa seyðið.

Ég held að þetta sé eiginlega bara fáránlegt. Ekki nóg með að þetta sé fáránlegt heldur er þetta líka eitthvað sem skapar gríðarlega áhættu fyrir hagkerfi landsins eins og komið hefur fram í máli nokkurra hv. þingmanna áðan, það er verið að bjóða hættunni heim.

Herra forseti. Við verðum að hætta að spila rúllettu með hagkerfið okkar. Það er bara ekki í boði lengur. Við erum búin að upplifa eitt hrun. Við eigum ekki að vera að stilla öllu upp fyrir annað.

Þó svo að þetta frumvarp eigi kannski einhvern tíma eftir að verða að lögum held ég að við verðum í alvöru talað að fara að forgangsraða mikilvægu atriðunum fyrst.