146. löggjafarþing — 38. fundur,  2. mars 2017.

vextir og verðtrygging o.fl.

216. mál
[16:52]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka fyrir svarið, enda er það nokkurn veginn á þá leið sem mér datt í hug varðandi seinni liðinn. En reyndar lýsti hv. þingmaður hegðun Brown-ferla nokkuð réttilega. Þegar gjaldmiðill hefur hækkað töluvert mun hann að sjálfsögðu að lokum leita niður á við. Í nákvæmlega þessu atriði felst akkúrat sú gengisáhætta sem búið er að tala mikið um. Og varðandi hitt atriðið ætti maður kannski að bíða eftir því að gengi krónunnar veikist svolítið áður en slíkt lán yrði tekið en þegar við erum að tala um svona mismun í vaxtakjörum er hvatinn auðvitað til staðar. Það er einmitt þess vegna sem ég lít svo á að í frumvarpinu felist hvatning til þess að taka lán í erlendri mynt ef efnahagslegar aðstæður eru þannig. Þær eru það kannski ekki á þessu augnabliki en við vitum að gengi krónunnar mun á einhverjum tímapunkti fara lækkandi gagnvart öðrum gjaldmiðlum. Það er eðli Brown-ferla. Það er eðli allra hluta að leita að sínu jafnvægi.

Ég er að sjálfsögðu ekki að hnýsast í einkahagi hv. þm. Vilhjálms Bjarnasonar, þegar ég spyr svona, en mig langar engu að síður til að skilja hvers vegna hann lítur svo á að í þessu felist engin hvatning og engin áhætta fyrir hagkerfið. Því að það er einmitt kjarni málsins í frumvarpinu, það er nákvæmlega það sem við erum að tala um hér. Og það að hann sjái ekki ástæðu til að taka lán á þessu augnabliki, hvað ef gengið myndi lækka um 20,25% gagnvart evru á næstunni? Væri þá ekki svolítið áhugavert að taka slíkt lán?